Fara í efni
Ferðaþjónusta

Blása til nýrrar sóknar í atvinnumálum

Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Í baksýn er togarinn Kaldbakur EA 1. / myndir: Axel Þórhallsson/Þórhallur Jónsson/samherji.is

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf., og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja hf., hafa stofnað félagið Drift EA með það að markmiði að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar munu frumkvöðlar og fyrirtæki fá aðstöðu og stuðning við að vinna hugmyndum sínum framgang innan og utan landsteinanna.

Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því gengið var frá kaupum á Samherja hf. og Guðsteini GK breytt í frystitogarann Akureyrina EA. Frá þeim tímamótum hefur Samherji verið með stærstan hluta starfsemi sinnar við Eyjafjörð.


„Drift EA er stofnað í tilefni þessara tímamóta og í þakklætisskyni við íbúa og fyrirtæki á starfsvæði Samherja.

Tilgangurinn með stofnun Driftar EA er að gefa til baka til samfélagsins en um leið byggja upp ný fyrirtæki og atvinnugreinar á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir í tilkynningu. 

Drift EA verður með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri - Hjarta bæjarins.

Í starfsemi Driftar EA verður áhersla lögð á verkefni á sviði matvælaframleiðslu, heilbrigðis- og lækningavöruframleiðslu, líftækni, hugbúnaðarlausna fyrir sjávarútveg og grænna lausna.

Drift EA verður með aðsetur í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri en fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf., sem er að hluta til í eigu sömu aðila, festi kaup á húsinu í nóvember á síðasta ári.

Við undirbúning stofnunar félagsins hefur verið haft samráð við erlenda og innlenda aðila á ýmsum sviðum nýsköpunar. Sú vinna mun halda áfram á næstu mánuðum.

Vilja skapa ný störf í Eyjafirði til framtíðar

Þorsteinn Már Baldvinsson segir að hjá Drift EA verði í forgangi verkefni sem geta ýtt undir verðmætasköpun og framtíðarvöxt í atvinnulífi á Eyjafjarðarsvæðinu.


„Við höfum alltaf verið með höfuðstöðvar Samherja á Akureyri, gert skip félagsins út héðan og verið með vel búin vinnsluhús á Akureyri og á Dalvík. Nú viljum við skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun í þessu sögufræga húsi við Ráðhústorgið á Akureyri og styðja þannig enn frekar við uppbyggingu atvinnulífsins í okkar nærsamfélagi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.

Táknrænt verkefni

Kristján Vilhelmsson segir að með starfsemi Driftar EA verði fyrst og fremst stefnt að uppbyggingu verkefna á meginstarfssvæði Samherja.

„Saga Samherja er í eðli sínu saga frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækis. Við vildum minnast 40 ára afmælisins á táknrænan hátt og með því stuðla að því að nýjar sögur af þessu tagi verði sagðar hér í okkar heimabyggð. Núna í desember eru einmitt liðin 40 ár síðan Akureyrin EA 10 fór í sína fyrstu veiðiferð. Markmiðið er að gamla Landsbankahúsið verði miðstöð nýsköpunar hér á Eyjafjarðarsvæðinu,“ segir Kristján Vilhelmsson.

Stefnt er að því að Drift EA hefji formlega starfsemi á fyrri hluta ársins 2024 og verða áherslur félagsins þá kynntar nánar.