Fara í efni
Ferðaþjónusta

Fjárfestu í rekstri fyrir meira en allan hagnað

Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Samherja, í ræðustóli á Sjávarútvegsdeginum. Mynd af Samherja.

Á síðustu fimm árum hafa Samherji Ísland og Samherji fiskeldi varið meira fé í fjárfestingar í rekstri en sem nemur hagnaði félaganna á sama tíma; um er að ræða fjárfestingar í nýjum skipum, vinnsluhúsum og tækjabúnaði. Greint er frá þessu á vef fyrirtækisins í morgun

„Árið 2020, þegar Samherji vígði nýtt vinnsluhús á Dalvík, fór hlutfallið upp í 145%,“ segir á vef Samherja.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í erindi Baldvins Þorsteinssonar, stjórnarformanns Samherja hf., á Sjávarútvegsdeginum, árlegum fundi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins undir yfirskriftinni: „Hvað næst?“ þar sem fjallað var um stöðu og framtíðarhorfur í fiskeldi, veiðum og vinnslu. Baldvin, sem er einnig stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins Alda Seafood í Hollandi, kom víða við í erindi sínu.

Hann bar meðal annars saman mismunandi starfsumhverfi í sjávarútveginum á Íslandi, Noregi og annars staðar í Evrópu þar sem Alda Seafood er með starfsemi.

Stöðugar fjárfestingar á undanförnum árum hafa skapað Samherja visst samkeppnisforskot, að sögn Baldvins. „Fjárfestingar félagsins síðustu ár hefðu miðast við endurnýjun skipaflotans og aukna verðmætasköpun á Íslandi. Fjárfestingar Samherja í rekstrinum, þ.e. í skipum, vinnsluhúsum og tækjabúnaði, nema alls 31,8 milljörðum króna á síðustu fimm árum á verðlagi hvers árs,“ segir á vef fyrirtækisins.

Áfram á sömu braut

„Samherji hefur fjárfest fyrir hærri fjárhæðir en hagnaður félagsins hefur verið. Þetta hefur verið gert til að framleiða verðmætari afurðir í framtíðinni. Ef við lítum á síðustu fimm árin, var erfiðleikum háð að fjárfesta á meðan heimsfaraldurinn geisaði. Við munum halda áfram á sömu braut á komandi árum,“ sagði Baldvin í erindi sínu.

Hann gerði síðan grein fyrir helstu verkefnum Samherja á komandi árum.

„Stærsta einstaka verkefnið er uppbygging landeldis á Reykjanesi sem er spennandi tækifæri. Við sjáum að viðskiptavinir okkar vilja fjölbreytt vöruframboð og laxinn er orðinn stærsta varan í flestum löndum,“ sagði Baldvin.

„Við viljum og teljum nauðsynlegt að bjóða þeim að kaupa lax, sem er lykillinn í áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Skóflustungan að fyrsta áfanga landeldisstöðvar Samherja fiskeldis á Reykjanesi verður tekin 15. nóvember. Kostnaður við fyrsta áfangann er um 35 milljarðar króna en fullbúin mun landeldisstöðin á Reykjanesi kosta um 95 milljarða króna. Við þurfum sömuleiðis að endurnýja skipaflotann og auka þar með verðmætasköpun og minnka kolefnissporið,“ sagði Baldvin Þorsteinsson stjórnarformaður Samherja.