Fara í efni
Ferðaþjónusta

Baldvin nýr formaður stjórnar Samherja

Baldvin Þorsteinsson, til vinstri, og Eiríkur S. Jóhannsson. Mynd: Samherji

Baldvin Þorsteinsson tók við stjórnarformennsku í Samherja á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Hann tekur við af Eiríki S. Jóhannssyni sem setið hefur í stjórn Samherja samfellt síðan árið 2001, þar af sem stjórnarformaður frá 2005. Eiríkur mun hér eftir einbeita sér að verkefnum fjárfestingafélagsins Kaldbaks ehf. þar sem hann gegnir stöðu framkvæmdastjóra, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Samherja.

  • Baldvin er sonur Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja og Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans, sem lengi sat í stjórn félagsins.
  • Baldvin er forstjóri Öldu Seafood í Hollandi. Hann keypti félagið af Samherja Holding í lok síðasta árs, en Alda Seafood hafði haldið utan um erlenda starfsemi Samherja í Evrópu og í Norður-Ameríku frá árinu 2018.

Auk Baldvins Þorsteinssonar voru kjörin í stjórn Samherja þau Ásta Dís Óladóttir, Dagný Linda Kristjánsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Óskar Magnússon, sem er varaformaður stjórnar.

Einstaklega ánægjuleg ár og lærdómsrík

„Á þessum rúmlega tuttugu árum sem ég hef verið í stjórn hefur Samherji hf. vaxið og dafnað. Ekki síst vegna þess að fyrirtækið hefur ráðið til sín öflugt starfsfólk í fremstu röð. Þá hafa stjórnendur Samherja hf. borið gæfu til að verja afkomu fyrirtækisins til uppbyggingar þess með fjárfestingum í rekstrinum. Þetta hefur skilað sér í betri og hagkvæmari skipum, innleiðingu tækninýjunga bæði á sjó og í landvinnslu og bættu vinnuumhverfi starfsfólks. Þessi ár hafa verið einstaklega ánægjuleg en í senn lærdómsrík. Ég vil þakka Þorsteini Má, forstjóra, fyrir gott og gefandi samstarf. Þá vil ég þakka starfsfólki, stjórnarmönnum og hluthöfum fyrirtækisins fyrir ánægjulega samvinnu,” segir Eiríkur S. Jóhannsson í tilkynningu frá félaginu.

Spennandi verkefni í farvatninu

Þorsteinn Már Baldvinsson segir þar að reynsla og þekking Eiríks hafi verið afar dýrmæt fyrir Samherja hf. „Framlag Eiríks til félagsins hefur verið framúrskarandi gegnum árin. Það var mikið lán að fá hann inn í stjórnina á sínum tíma og geta þannig notið liðsinni hans í mörgum krefjandi verkefnum sem hafa haft mikla þýðingu fyrir félagið á tímabilinu,“ segir Þorsteinn Már.

Baldvin Þorsteinsson, nýkjörinn stjórnarformaður, segir ýmsar áskoranir framundan enda spennandi verkefni í farvatninu hjá Samherja hf. „Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt og er stoltur að taka við sem formaður stjórnar Samherja hf. Ég byrjaði fyrst að vinna hjá félaginu ungur að árum og hef unnið margvísleg ólík störf hjá því gegnum árin. Ég hlakka til að starfa með föður mínum og öllu því frábæra starfsfólki sem er hjá Samherja hf. að áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir Baldvin.

  • Baldvin Þorsteinsson hefur verið einn stærsti eigandi Samherja hf. síðan árið 2020 þegar Helga Steinunn og Þorsteinn Már framseldu hlutabréfaeign sína í félaginu til barna sinna. Börn þeirra, Baldvin og Katla, fara með samanlegt um 43% hlut í Samherja, að því er fram kom á vef félagsins í maí 2020. Á sama tíma framseldu Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir hlutabréfaeign sína til barna sinna og síðan fara Dagný Linda, Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín samanlagt með um 41,5% hlutafjár.