Fara í efni
Ferðaþjónusta

Ánægjulegt og mikilvægt skref

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, og Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Hyrnu, „handsöluðu“ samninginn með hamri! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Breytt og bætt flugstöð á Akureyrarflugvelli verður tekin í gagnið sumarið 2023 að sögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, framkvæmdastjóra Isavia innanlandsflugvalla. Sigrún og Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri byggingafélagsins Hyrnu á Akureyri, skrifuðu í dag undir samning um smíði viðbyggingar við flugstöðina og breytingar á núverandi byggingu.

Verkáætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok mars næstkomandi og þeim verði lokið í byrjun ágúst 2023. Verkefninu er skipt niður í þrjá áfanga. Sá fyrsti snýr að nýrri viðbyggingu við flugstöðina. Í öðrum áfanga verður núverandi komusvæði flugstöðvarinnar endurbyggt og þar er áætlað að nýtt innritunarsvæði verði. Nýtt skyggni og töskubílaskýli verður þá einnig byggt með tilheyrandi malbikun. Í þriðja og síðasta áfanga verða núverandi innritunarsvæði og skrifstofuhluti endurbyggð.

Stórt verkefni

„Það er afar ánægjulegt að taka þetta næsta og mikilvæga skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla í sameiginlegri tilkynningu Isavia og Hyrnu. „Hér er um stórt verkefni að ræða, nánar tiltekið þessi 1.100 fermetra viðbygging við flugstöðina og um leið bætt aðstaða fyrir lögreglu, toll, fríhöfn og veitingastað. Þjónustan við farþega og flugfélög batnar til muna og við hlökkum til að taka þessa breyttu og bættu flugstöð í gagnið síðsumars 2023.“

Ánægjulegt

„Við hjá Hyrnu erum afar spennt að hefjast handa við þetta mikilvæga verkefni,“ segir Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Byggingafélagsins Hyrnu. „Verkáætlun liggur fyrir og okkar fólk reiðubúið að setja allt í gang. Það er einkar ánægjulegt að taka þátt í að hleypa þessu verkefni af stokkunum hér í dag. Þetta er eitt af mínum síðustu verkefnum hjá Hyrnu nú þegar ég læt af störfum um áramótin eftir rúmlega fimm áratuga starf. Það verður ánægjulegt að sjá þessa stækkun rísa.“

 Samningsupphæðin fyrir verkið er 810,5 milljónir króna.

Anton Þórarinsson, verkefnastjóri hjá Hyrnu, Ólafur Ragnarsson framkvæmdastjóri Húsheildar, sem hefur keypt Hyrnu og tekur við rekstrinum um áramót, og Örn Jóhannsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Hyrnu.

Nýja byggingin er vinstra megin á þessari mynd frá Isavia.

Í flugstöðinni á Akureyri í dag. Frá vinstri: Sigrún Björk Jakobsdóttir, Örn Jóhannsson, Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar.