Fara í efni
Ferðaþjónusta

17-20 þúsund til Köben og London, 40 til Tene

Bókunarsíða flugfélagsins Niceair á Akureyri var opnuð í dag og viðbrögð hafa farið fram úr björtustu vonum, að sögn Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra félagsins. 

Flugmiði frá Akureyri til Stanstead flugvallar í London í júní kostar frá 17-20 þúsund krónur, skv. upplýsingum á bókunarsíðunni. Miði til Kaupmannahafnar kostar um það bil 19 þúsund krónur og til Tenerife tæpar 40 þúsund krónur.

  • Flogið verður á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar á fimmtudögum og sunnudögum
    Brottför frá Akureyri klukkan 7.45 að morgni og lent 13.15 að staðartíma í Kaupmannahöfn. Brottför þaðan klukkan 14.15 og lent á Akureyri 15.45.
  • Flogið verður á milli Akureyrar og Stanstead flugvallar í London á mánudögum og föstudögum
    Brottför frá Akureyri klukkan 7.45 að morgni og lent 11.45 að staðartíma í London. Brottför þaðan klukkan 12.45 og lent á Akureyri 14.45.
  • Flogið verður á milli Akureyrar og Tenerife á miðvikudögum
    Brottför frá Akureyri klukkan 7.45 að morgni og lent 14.45 að staðartíma í Tenerife. Brottför þaðan klukkan 15.15 og lent á Akureyri 19.45.

Jómfrúarflug Niceair verður 2. júní til Kaupmannahafnar, daginn eftir verður fyrsta flug til London og til Tenerife 8. júní. Sumaráætlunin gildi til 30. september

„Um borð hjá Niceair getur þú verslað úrval gæða vara, svo sem ilmvötn, skartgripi og vín, ásamt ýmsu öðru. Við munum einnig bjóða til sölu mat og drykk gegn hóflegu gjaldi,“ segir á heimasíðu Niceair. Þar kemur fram að kappkostað verði að hafa hráefni, framleiðslu og drykki frá heimahöfn félagsins við Eyjafjörð.

Smellið hér til að sjá flugáætlun Niceair