Fara í efni
Evrópukeppni í handbolta

Jafnt í líflegum fyrsta leik KA – MYNDIR

Fyrsta mark KA í sumar - Ásgeir Sigurgeirsson og Bjarni Aðalsteinsson fagna á 24. mínútu eftir að Ásgeir jafnaði, 1:1, eftir laglegan undirbúning Bjarna. Viðar Örn Kjartansson í fjarska. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA og KR gerðu 2:2 jafntefli í dag í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmótsins. Leikurinn á Greifavelli KA var fjörugur og mikil skemmtun, einkum fyrri hálfleikurinn þegar öll mörkin voru gerð, en líf var sannarlega í leikmönnum liðanna í þeim seinni líka þótt mörkin yrðu ekki fleiri því bæði lið fengu góð færi til þess.

Aðstæður til að leika knattspyrnu gerast vart betri en á Akureyri í dag: logn, um það bil 10 stiga hiti og nokkrir rigningardropar féllu um tíma.

KR TEKUR FORYSTU

0:1 – KR komst yfir á 10. mín. eftir slæm mistök Ívars Arnar fyrirliða KA. Ívar var með boltann við eigin vítateig og hugðist senda út á kant en ekki vildi betur til en svo að boltinn fór rakleiðis til Atla Sigurjónssonar. Hann var fljótur að átta sig, sendi á Luke Rae sem lék inn á teig og vippaði laglega yfir Steinþór markvörð og í netið.

ÁSGEIR JAFNAR

1:1 – Hans Viktor Guðmundsson sendi boltann af hægri vængnum á Bjarna Aðalsteinsson sem var utarlega í vítateig KR-inga, Bjarni sendi boltann áfram á snilldarlegan hátt, með brjóstkassanum, á Ásgeir Sigurgeirsson sem þrumaði að marki  og skoraði; Halldór Georg markvörður hálfvarði skotið en það var of fast til þess að hann næði að koma í veg fyrir að Ásgeir skoraði. Þetta var á 24. mín.

HANS VIKTOR KEMUR KA YFIR

2:1 – Hallgrímur Mar Steingrímsson tók hornspyrnu frá vinstri á 32. mínútu og lyfti boltanum í átt að nærstönginni. Þar skallaði Ásgeir Sigurgeirsson boltann aftur fyrir sig yfir á miðjan markteig og var ákveðnastur Hans Viktor Guðmundsson; varnarmaðurinn stæðilega stökk hæst allra og skoraði með skalla.

GLÆSILEGT JÖFNUNARMARK

2:2 – Tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar Jóhannes Kristinn Bjarnason jafnaði með glæsilegu skoti utan vítateigs. Ekkert benti til þess að hætta væri á ferðum; KR átti innkast á hægri kantinum, Finnur Tómas fékk boltann og renndi til vinstri á Jóhannes Kristin, sem var töluvert utan vítateigs og skaut nokkuð óvænt; boltann sveif í boga og hafnaði ofarlega í vinstra horn KA marksins án þess að Steinþór kæmi vörnum við.

 

TVEIR REKNIR ÚTAF

Þegar um það bil 10 mínútur lifðu leiks (þótt vallarklukkan gæfi til kynna að þær væru tvær) var Aron Sigurðarson fyrirliði KR rekinn af velli. Sá sem þetta skrifar veit ekki hvað gerðist en talað var um að hann hefði slegið Andra Fannar Stefánsson. Aron gengur af velli á myndinni til vinstri og á þeirri hægri „aðstoðar“ Ingimar Torbjörnsson Stole KR-inginn Hjalta Sigurðsson út af, eftir að dómarinn sýndi honum einnig rauða spjaldið. Þá var lítið eftir af leiknum; Hjalti stöðvaði Jakob Snæ Árnason úti á miðjum velli með því að toga í hann og fékk að líta gula spjaldið í annað sinn – og þar með rautt.

Leikskýrslan

Næstu leikir KA í deildinni:

Sunnudag 13. apríl kl. 19.15
Víkingur - KA
 
Miðvikudag 23. apríl kl. 18.00
Valur - KA
 
Sunnudag 27. apríl kl. 16.15
KA - FH