Dagur hitti strákana í hádeginu – utan hóps í dag
Hornamaðurinn Dagur Gautason er mættur til Búdapest en er reyndar utan leikmannahópsins gegn Svartfjallalandi í dag, í síðasta leik milliriðilsins á EM í handbolta. Bjarki Már Elísson er í hópnum á ný eftir að hann losnaði úr einangrun vegna Covid-19 og þess vegna hafði Guðmundur landsliðsþjálfari ekki þörf fyrir Dag að þessu sinni.
Dagur flaug frá Keflavík um eittleytið í nótt, millilenti í Frankfurt og kom til Búdapest í morgun. „Ég hitti strákana ekki fyrr en í hádegismatnum!“ sagði hann við Akureyri.net í íþróttahöllinni áðan. Dagur verður til taks á föstudaginn, þegar íslenska liðið leikur vonandi aftur – um fimmta sætið eða í undanúrslitum. Það skýrist í dag; Ísland verður altjent að vinna leikinn á eftir til að halda áfram keppni. Leikur íslands og Svartfjallalands hefst klukkan 14.30.