Fara í efni
easyJet

National Geographic: Skógarböðin, „Best í heimi“

Samfélagsmiðlastjarnan Eva Zu Beck í Skógarböðunum. Ljósmyndir: National Geographic og Kraumar

Bandaríska tímaritið National Geographic velur árlega áfangastaði víða um heim sem það skilgreinir sem Best í heimi (Best of the World). Þetta árið eru Skógarböðin við rætur Vaðlaheiðar meðal þeirra staða sem hljóta þann heiður og verður það að teljast verðug nafnbót fyrir böðin sem og heiður fyrir Norðurland í heild.

Af þessu tilefni kom kvikmyndagerðarfólk á vegum National Geographics í heimsókn til Akureyrar fyrr í vetur og með í för var samfélagsmiðlastjarnan Eva Zu Beck sem heldur úti vinsælli youtube rás https://www.youtube.com/@evazubeck sem og athyglisverðri Instagram rás https://www.instagram.com/evazubeck

Kristján Kristjánsson, Kári Liljendal, Úlfrún Eysteinsdóttir og Brandon fylgja Önnu Richards og Evu Zu út í ískaldan sjóinn.

Tilgangurinn var að framleiða þátt um upplifun Evu af Skógarböðunum og öðrum athyglisverðum stöðum í nágrenni Akureyrar. Fyrir tilstilli Markaðsstofu Norðurlands var norðlenska framleiðslufyrirtækið Kraumar fengið til að aðstoða við framleiðslu þáttarins og óhætt að segja að útkoman hafi orðið ansi skemmtileg.

Eva Zu Beck á gönguskíðum. Fyrir aftan eru, frá vinstri, Kári Liljendal, Úlfrún Eysteinsdóttir, Sindri Swan, Elvar Örn Egilsson og Brandon.

Þetta frábæra og virta tímarit hafði samband við Íslandsstofu sem kom fyrirspurninni áfram til Markaðsstofu Norðurlands. „Tilefnið var að Skógarböðin væru á lista National Geographic yfir bestu vellíðunar áfangastaði heims og að taka ætti upp sérstakan þátt um böðin til að sýna á miðlum NG,“ segir Halldór Óli Kjartansson hjá Markaðsstofu Norðurlands. „Þetta þurfti að vinna með stuttum fyrirvara og við bentum þeim á framleiðslufyrirtæki hér fyrir norðan sem gætu unnið þetta áfram með NG. Kraumar varð fyrir valinu og nú má sjá útkomuna á YouTube rás National Geographic, þar sem horft hefur verið á þáttinn yfir 100 þúsund sinnum fyrsta sólarhringinn eftir að það var sett í loftið,“ segir Halldór.

Öfundar Norðlendinga!

„Halldór hjá Markaðsstofu Norðurlands tengdi okkur við erlendu framleiðendurna og eftir samtal við Noam, leikstjóra þáttarins fengum við að vita að Eva væri ævintýramannskja, ferðabloggari og grænmetisæta og var það sett í okkar hendur að búa til áhugaverða ferðasögu í kringum heimsókn hennar í Skógarböðin,“ segir Kristján Kristjánsson, framleiðandi hjá Kraumar. „Við vissum að upplifunin þyrfti að vera einstök en á sama tíma þyrfti að vera tenging við heilsu og vellíðan, svo útsýni, hreint loft, adrenalínaukning, sjóböð í Atlantshafinu og grænmetisræktun á hjara veraldar urðu hluti af því ævintýri sem hún átti eftir að upplifa.“

Hrólfur Jón Flosason, yfirkokkur á Fosshótel Húsavík eldar tómatsúpu í 14 gráðu frosi.

Áskrifendur að youtube rás National Geographics eru um 23 milljónir og ef áhorfstölur halda áfram að margfaldast þá verður þessi þáttur að teljast sem skemmtileg og jákvæð kynning á Norðurlandi og þá sérstaklega hvað varðar vetrarferðamennsku. Í lok myndbandsins talar Eva um upplifunina í heild og það sem vekur eftirtekt er hvernig hún segist finna til samfélagslegrar öfundar gagnvart lífsstíl og lifnaðarháttum okkar, íbúa Norðurlands.

Ekki slæm ummæli það! Sjón er sögu ríkari! Smellið hér til að horfa á myndbandið.

Noam og Brandon ásamt Elísabetu Sigursveinsdóttur og Ragnari Reykjalín hjá Ekta fiski.