Fara í efni
easyJet

„Enn ein perlan“ í röð Íslandshótela

„Þetta er virkilega spennandi verkefni sem við hjá Íslandshótelum hlökkum mikið til að takast á við og bjóða upp á úrvalsgistingu í því fagra umhverfi sem umlykur Skógarböðin,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela, um nýja hótelið sem rísa mun við Skógarböðin. Eins og Akureyri.net greindi frá í gær munu Íslandshótel sjá um reksturinn.

Davíð Torfi segir ennfremur, í tilkynningu sem send var út í morgun: „Íslandshótel halda uppbyggingu sinni áfram og tryggja með þessu enn eina perluna í röð hótela um land allt.“

Í tilkynningunni segir ennfremur: „Íslandshótel og fjárfestar tengdir Skógarböðunum hafa undirritað viljayfirlýsingu um hönnun, uppbyggingu og rekstur fjögurra stjörnu hótels við hlið Skógarbaðanna í Eyjafirði. Hótelið verður með 120 herbergi, fjögurra hæða, auk þakhæðar með útsýni yfir Eyjafjörðinn.

Stórhuga draumar að rætast

Gert er ráð fyrir að á hótelinu verði glæsilegur veitingastaður, ráðstefnu- og veislusalur ásamt veglegri heilsulind. Þá er horft til þess að stækka baðhluta Skógarbaðanna þannig að hann muni tengjast hótelinu. Reiknað er með að fjárfestingin í hótelinu verði um fimm milljarðar króna og áætlað að það opni á vormánuðum 2026.

„Við erum afar spennt fyrir þessu verkefni og stórhuga draumar okkar um hótel tengt við Skógarböðin eru nú að rætast. Við viljum gera okkar til að byggja áfram upp ferðaþjónustu á Norðurlandi, enda getur hótel hér einnig stuðlað að bættum forsendum fyrir millilandaflugi til Akureyrar. Hótelið verður staðsett í jaðri skógarins í Vaðlareit og mun hafa einstakt útsýni yfir á Akureyri og inn og út Eyjafjörðinn, lengsta fjörð Íslands. Hönnunin er glæsileg, fellur vel að umhverfinu og algjörlega í samræmi við hugmyndir okkar,“ segja Sigríður María Hammer og Finnur Aðalbjörnsson, aðaleigendur Skógarbaðanna, í tilkynningunni.

Gæðahótel kærkomin viðbót

„Erlendum ferðamönnum á svæðinu fjölgar jafnt og þétt allt árið um kring. Yfir vetrarmánuðina koma einnig þúsundir Íslendinga norður til skammtímadvalar, taka þátt í íþróttamótum eða skella sér á skíði, svo eitthvað sé nefnt. Að bæta gæðahóteli við Skógarböðin fyrir þá sem heimsækja Eyjafjörð er því ekki aðeins tímabær, heldur einnig kærkomin viðbót og það verður ánægjulegt að fylgjast með áframhaldi uppbyggingu á Norðurlandi,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.

Síðan segir: „Basalt arkitektar, ein reynslumesta stofan hvað varðar hönnun hótela og baðstaða, er hönnunaraðili hótelsins.

Íslandshótel er leiðandi afl í íslenskri ferðaþjónustu og rekur 18 hótel með um 2000 herbergi á lykilstaðsetningum um land allt undir merkjum Fosshótela og Reykjavíkurhótela. Fyrirtækið er styrk stoð í þessari sívaxandi atvinnugrein og mun halda að vera fyrsti valkostur þeirra sem velja hótelgistingu á Íslandi.“