Sjá vonandi tækifæri og auðlindir ÖA
Forráðamenn Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA) vonast til þess að þeir sem taka við rekstri heimilanna í byrjun maí „sjái og nýti tækifærin og auðlindir ÖA til að viðhalda og þróa þjónustu við eldri borgara á Akureyri,“ eins og það er orðað í bréfi sem sent var aðstandendum íbúa heimilanna í gær.
Akureyrarbær hefur séð um rekstur heimilanna um langt árabil en sagði upp samningi þar að lútandi við Sjúkratryggingar Íslands á síðasta ári. Samningurinn rann út um áramóta en var framlengdur út apríl. Ekki er vitað hverjir taka við rekstrinum, en viðræður standa yfir milli SÍ og tveggja aðila sem sýndu því áhuga.
Fulltrúar beggja hafa kynnt sér aðstæður á heimilunum og fundað með starfsfólki.
„Í heimsókn og kynningunum á starfsemi ÖA er leitast við að vekja athygli á meginþáttum í starfseminni, þróunarverkefnum og nýjum úrræðum og áherslum hvort sem er á sviði hugmyndafræði eða úrræða. Dæmi um það er Eden, þjónandi leiðsögn, meðferðar og klúbbastarfið um Lífsneista og stuðningur og ráðgjöf við einstaklinga með heilabilun, eða fræðslumál og miðlun. Samhliða hefur áherslan verið á uppbyggingu í faglegri starfseminni á ýmsum sviðum s.s. gæða- og öryggismálum, tækni, samstarfi og stuðningi við aðstandendur og læknisþjónustu, hjúkrunar og umönnun við lífslok – svo fátt eitt sé nefnt,“ segir í bréfi ÖA til aðstandenda.
„Öll þekkjum við að dvöl á hjúkrunarheimili eða í dagþjálfun, er mikilvægur hluti af þjónustu við aldraða íbúa Akureyrar sem vegna áfalla eða lasleika þurfa í sumum tilvikum að flytja inn á hjúkrunarheimili til að fá þjónustu við hæfi. Hluti af þjónustunni við íbúa felst í að ÖA er búsetuúrræði ekki síður en hjúkrunarheimili, af því það er talið hagkvæmara fyrir samfélagið að veita íbúum þjónustu á einum stað en ekki sólarhringsþjónustu á heimili hvers og eins.“
Bent er á að munurinn á ÖA og öðrum þjónustustofnunum; sjúkrahúsinu, heilsugæslunni, velferðarsvæði bæjarins, grunnskólum og leikskólum, sé einmitt sá að á ÖA búa „þjónustuþegarnir“ allan sólarhringinn og eiga þar lögheimili. „ÖA er því heimili íbúanna í sveitarfélaginu. Þegar sótt er þjónusta til annarra þjónustustofnana, þá flytja notendur ekki lögheimili sitt og búslóð. Í þessu liggur sérstaða hjúkrunar- og dvalarheimila, að hjúkra og styrkja þá sem búa heima hjá sér,“ segir þar.
Þjónusta við aldraða hefur verið samfellt á vegum Akureyrarbæjar í um 77 ár. „Nú horfum við fram á mögulegar breytingar og umræðu um áherslur okkar og leiðarljós í þróun á starfinu í þjónustu við aldraða á Akureyri.
Innra starf ÖA er öflugt og metnaðarfullt og heimilin búa að öflugum hópi starfsfólks og stjórnenda. Þess vegna höldum við áfram að vanda okkur í öllum verkum, smáum sem stórum, í trausti þess að við höfum verið á réttri leið í umönnun og stuðningi við eldra fólk í samfélaginu. Það verður vonandi þannig að hugsanlegir nýir rekstraraðilar sjái og nýti tækifærin og auðlindir ÖA til að viðhalda og þróa þjónustu við eldri borgara á Akureyri.“