Fara í efni
Dvalarheimilin

Stellurnar til sýnis á Hlíð næstu mánuði

Halldór Hallgrímsson, fyrrverandi skipstjóri á Svalbak, sem nú býr á Hlíð ásamt Lofti Pálssyni, til vinstri, sem lengi var í áhöfn Halldórs. Sigfús Ólafur Helgason er til hægri, sem afhenti dvalarheimilinu líkanið til láns, var einnig á Svalbak um tíma. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Hópur fyrrverandi sjómanna Útgerðarfélags Akureyringa kom færandi hendi á dvalarheimilið Hlíð í nýliðinni viku, með líkan af Stellunum svokölluðu; Svalbak EA 302 og Sléttbak EA 304. Hópurinn lánaði Hlíð líkanið og verður það til sýnis á heimilinu næstu mánuði.

Þessi listasmíð Elvars Þórs Antonssonar á Dalvík var afhjúpað við hátíðlega athöfn í matsal ÚA 1. nóvember í haust, nákvæmlega 50 árum eftir að togararnir komu til heimahafnar á Akureyri í fyrsta skipti.

Sigfús Ólafur Helgason fór fyrir hópnum sem fyrr. „Það var á vordögum í fyrra sem við nokkrir fyrrum sjómenn ÚA komum okkur saman um að kanna hvort það væri vilji og áhugi meðal okkar að láta smíða líkan af Stellunum svokölluðu. Stellurnar eru skírskotun í nöfn skipanna er um ræðir þegar þau voru keypt árið 1973 til ÚA frá Klakksvík í Færeyjum og hingað heim komin 1. nóvember 1973 fengu þau nöfnin Svalbakur EA 302 og Sléttbakur EA 304,“ sagði Sigfús og spurði:  „Munið þið einhver hér eftir mótttökuathöfninni á Togarabryggjunni?“

Á meðal viðstaddra á Hlíð var Halldór Hallgrímsson sem var skipstjóri á Svalbak á sínum tíma og sótti það til Færeyja. Hann er nú búsettur á dvalarheimilinu. Halldór og Sigurlaug Magnúsdóttir, ekkja Áka Stefánssonar skipstjóra á Sléttbak, afhjúpu líkanið í haust.

Sigfús Ólafur nefndi að í tengslum við smíðan líkansins hefði verið gerð kvikmynd, í samstarfi við Traustmynd á Akureyri. Verið væri að leggja lokahönd á hana og ætlunin væri að koma fyrr en síðar og sýna heimilisfólkinu á Hlíð.

Listasmiðurinn Elvars Þórs Antonssonar við líkan sitt af „Stellunum„, Sigfús Ólafur í pontu.

„Enn fremur langar okkur fyrrum sjómenn að koma aftur til ykkar hér og segja ykkur sögur af þessum skipum, því þetta og voru ekki bara falleg skip, heldur er líka alveg ótrúleg saga sem fylgir þeim og veit ég að það verður gaman fyrir ykkur að fá að heyra hana.“

Þá gat Sigfús Ólafur þess að áhugi væri á að skreyta veggi Hlíðar með myndum í eigu Sjómannafélags Eyjafjarðar, af skipum sem hafa verið í eigu Akureyringa og annarra Eyfirðinga.