Fara í efni
Dvalarheimilin

Mygla á Hlíð – grunur um að „heilsufarsleg einkenni“ megi rekja til húsnæðis

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Hlíð við Austurbyggð.

Grunur leikur á að veikindi – „heilsufarsleg einkenni“ – einhverra íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð við Austurbyggð á Akureyri megi mögulega rekja til ástands húsnæðisins. Mygla hefur fundist og verkfræðistofan Mannvit gerir alvarlegar athugasemdir varðandi húsnæðið í  nýlegri skýrslu.

Forsvarsmenn Heilsuverndar - Hjúkrunarheimilis (HH), sem rekur bæði Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri, gáfu á dögunum heilbrigðisráðuneytinu og Akureyrarbæ 14 daga frest til að bregðast við athugasemdum í skýrslunni og rann sá frestur út á mánudaginn. Fyrirtækið hefur ekki fengið skýr svör varðandi framhaldið önnur en þau „að eigendur húsnæðisins (Akureyrarbær og ríkið) fundi fljótlega um málið,“ segir í bréfi framkvæmdastjóra HH til starfsmanna í dag.

„Við höfum lagt fram beiðni til húseigenda um að fá að gera nánari úttekt á loftgæðum innanhúss og greiða fyrir hana sjálf. Tvær verkfræðistofur voru tilbúnar til að vera okkur innan handar og bregðast snöggt við beiðninni. Sú beiðni hefur ekki enn verið samþykkt og við getum því ekki farið í slíka úttekt fyrr en samþykki liggur fyrir,“ segir í bréfinu.

Fram kemur að fulltrúar frá HH ásamt lögfræðingi óski eftir fundi með fulltrúum ráðuneytis og Akureyrarbæjar eins fljótt og unnt er.

Á Hlíð eru níu deildir og nú er unnið að flutningi íbúa af tveimur þeirra, Víðihlíð og Furuhlíð, „á önnur heimili þar sem grunur liggur á að heilsufarsleg einkenni hjá þeim sé mögulega hægt að rekja til húsnæðisins. Ekki verða teknir inn nýjir íbúar í þau rými meðan óvissa ríkir um hvernig brugðist verður við niðurstöðum úttektar á húsnæðinu,“ segir í bréfinu til starfsmanna.