Fara í efni
Dvalarheimilin

Bærinn greiddi 1,8 milljarða með ÖA

Akureyrarbær greiddi ríflega 1,8 milljarða króna með rekstri Öldrunarheimila Akureyrar á árunum 2012 til 2020. Þetta kemur fram í yfirliti sem lagt var fram á fundi bæjarráðs í vikunni og unnið var af fjársýslusviði Akureyrarbæjar og KPMG. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir í grein sem birtist á Akureyri.net í dag að upphæðin sé í fullu samræmi við það sem bæjarfulltrúar hafi áður haldið fram.

„Engin innri leiga, engar bókhaldsæfingar heldur raunverulegur kostnaður sem bærinn hefur greitt með rekstri ÖA. Akureyrarbær hefur gert kröfu um að ríkið greiði halla af rekstri en því hefur alfarið verið hafnað og því var ekki annað í stöðunni en að skila rekstrinum til ríkisins,“ skrifar Guðmundur Baldvin.

Hávær umræða hefur verið í bænum síðan Heilsuvernd hjúkrunarheimili ehf, sem tók við rekstrinum 1. maí, sagði upp 13 manns í síðustu viku. Guðmundur  Baldvin segir uppsagnirnar hafa vakið upp ýmsar spurningar og að kallað hafi verið eftir svörum bæjarfulltrúa.

„Ein óskiljanlegasta gagnrýnin sem fram hefur komið í þessu máli er að bæjarstjórn Akureyrarbæjar sé sama um eldri íbúa bæjarins sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda. Sú gagnrýni er álíka ósanngjörn og segja að bæjarstjórn sé alveg sama um þá bæjarbúa sem leggjast á sjúkrahús, vegna þess að sveitarfélagið greiðir ekki fyrir þá þjónustu,“ segir formaður bæjarráðs.

Smellið hér til að lesa grein Guðmundar Baldvins

Yfirlit um greiðslur Akureyrarbæjar með rekstri Öldrunarheimila Akureyrarar árin 2012 til 2020. Plaggið var lagt fram á fundi bæjarráðs í vikunni og Guðmundur vísar til þess í grein sinni.