Fara í efni
DNG

Plast í Nettó öðlast nýtt líf hjá Polynorth

Allt frauðplast í verslun Nettó á Glerártorgi mun nú fá nýtt líf og umbreytast í einangrunarplast til byggingaframkvæmda í samstarfi við plastkubbaverksmiðjuna Polynorth á Óseyri. Verkefnið er liður í stefnu Samkaupa að verða leiðandi í úrgangsstjórnun. Endurnýting á frauðplasti er hluti af því að draga úr úrgangslosun verslana Samkaupa og auka þar flokkunarhlutfall. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nettó.
 
Minnka rusl og byggja úr því hús
Polynorth framleiðir EPS einangrunarplast til byggingarframkvæmda, fyrir sökkla, plötur, veggi og þök. „Samstarfið stuðlar að betri nýtingu auðlinda og dregur úr sorpmengun þar sem allt frauðplast sem fellur til í verslun Nettó á Glerártorgi er nú endurnýtt hjá Polynorth og notað í einangrun húsa á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.
 
 
Hús úr plasti frá Polynorth rís í Vaðlaheiði. Mynd úr umfjöllun Akureyri.net sumarið 2023.

Eitt helsta umhverfismál í rekstri matvöruverslana er matarsóun og flokkun á sorpi. Samkvæmt Bergrúnu Ósk Ólafsdóttur, verkefnastjóra umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum, hefur verið unnið markvisst að því að draga úr úrgangslosun í verslunum fyrirtækjanna. Verkefnið hefur að sögn gengið gífurlega vel og flokkunarhlutfall í verslunum hefur til að mynda farið úr 62% hlutfalli í fyrra og upp í 85% í ár. Samstarf við Polynorth mun hjálpa til við flokkun plasts, en frauðplast er sérflokkur frá öðru plasti, segir í tilkynningunni.

„Margir halda því fram að frauðplast sé slæmt fyrir náttúruna því það eyðist ekki. Þar erum við á öndverðum meiði og höldum því fram að frauðplast sé einmitt gott fyrir náttúruna þegar það er nýtt á réttan hátt. Ef byggt er hús úr húskubbum frá Polynorth má gera ráð fyrir að eftir 300 ár standi húsið óbreytt og plastið veiti sömu einangrun og þegar það var sett upp. Á sama tíma er líklegt að timburhús væri búið að laga og endurbyggja að minnsta kosti þrisvar, þar með er kolefnisspor timburhúsa margfalt á við frauðkubbahús,“ segir Hjörleifur Árnason, annar eigenda Polynorth.
„Það er frábært að geta endurnýtt frauðplastið í staðinn fyrir að henda því. Það tekur leiðinlega mikið pláss því það er ekki hægt að taka það í sundur og pressa eins og pappann. Í þessu verkefni vinna allir; umhverfið, Nettó og Polynorth. Eins manns rusl er annars gull, eins og máltækið segir,“ segir Nanna Rut Guðmundsdóttir, verslunarstjóri Nettó á Glerártorgi.
Samkaup leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfseminni sem endurspeglar metnað fyrirtækisins að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu, segir í tilkynningu fyrirtækisins.

 

Umfjöllun Akureyri.net um Polynorth: