Fara í efni
DNG

Margar ástæður fyrir töfum á tunnuskiptum

Þessar tunnur bíða eftir því að þeim verði skipt út. Fjögur hverfi í bænum eiga enn eftir að fá nýjar tunnur. Smkv. upplýsingum á heimasíðu Akureyrarbæjar er áætlaður heildarfjöldi nýrra sorpíláta fyrir allan bæinn á þessum tímapunkti 14.544 stk. Búið er að dreifa um 10.500 ílátum og á því eftir að dreifa um 4.000 ílátum.

Nú sér loks fyrir endann á sorptunnuskiptum á Akureyri. Nýjar sorptunnur vantar enn í Miðbæ, Innbæ, Naustahverfi og Hagahverfi en á næstu vikum verður allt kapp lagt á að klára tunnuskiptin.

Eins og Akureyri.net hefur áður greint frá hófust sorptunnuskipti í bænum síðasta sumar í takt við lög um meðhöndlun úrgangs, en samkvæmt þeim er öllum sveitarfélögum skylt að safna fjórum flokkum úrgangs við heimili í þéttbýli.

 

Margþættar ástæður fyrir töfum

Upphaflega var gert ráð fyrir því að tunnuskiptum á Akureyri myndi ljúka síðasta haust en umskiptin hafa tekið mun lengri tíma en ráðgert var í upphafi. Að sögn Jóns Birgis Gunnlaugssonar, verkefnisstjóra umhverfismála á umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, eru margar ástæður fyrir töfinni. Málið snýst ekki aðeins um að skipta út öllum sorptunnum í bænum heldur einnig sorpgámum og jafnframt er verið að setja upp djúpgáma. Nýtt flokkunarkerfi kallar líka á nýtt sorphirðudagatal og þá hefur Terra þurft að bæta við sig mannskap og efla tækjakost sinn til þess að geta hirt alla fjóra flokkana heim við hús. Breytingarnar í tengslum við nýja sorpflokkunarkerfið eru því margþættar.

Verið er að skipta út síðustu tunnunum á Neðri-Brekkunni. Þá verður farið í Miðbæinn, síðan í Innbæinn og endað á Nausta- og Hagahverfi. Losunartíðni á nýju tunnunum, sem taka pappír og plast, hefur ekki verið sem skyldi undanfarið á meðan verið er að klára tunnuútskiptin í bænum en þessar tunnur eiga að vera tæmdar á 28 daga fresti. 

Fjórðungur heimila hefur óskað eftir breytingum á tunnum

Upphaflega áttu sorptunnurnar að vera tvískiptar, tvær við hvert sérbýli, en fyrstu tunnurnar sem pantaðar voru til landsins stóðust ekki gæðakröfur bæjarins og Terra. Því var ákveðið að fara í þriggja tunnu kerfi. Seinkun varð síðan á afhendingu á tunnum frá framleiðanda í sumarlok sem seinkaði tunnuskiptum sunnan Glerár.

Þá hefur umtalsverður tími farið í það að afgreiða óskir íbúa um breytingar á tunnum en ólíkt öðrum sveitarfélögum fór Akureyrarbær þá leið að gefa íbúum kost á því að fara úr þremur tunnum niður í tvær með því að vera með tvískipta tunnu undir plast og pappír (hentar aðeins þar sem fáir eru í heimili). Um fjórðungur heimila í bænum hefur nýtt sér þetta. Að sögn Helga Pálssonar, rekstrarstjóra Terra á Norðurlandi, var þetta sannarlega göfugt upplegg hjá bænum en snúnara í framkvæmd, jafnvel þó einhverjar af þessum óskum hafi komið áður en tunnunum er dreift út. Að hans sögn hefur þessi valmöguleiki m.a. hægt á dreifingu á nýju tunnunum því samhliða tunnuskiptunum hefur Terra verið að vinna úr breytingabeiðnum. „Þá hafa sumir sem óskað hafa eftir færri tunnum óskað eftir breytingu til baka í þrjár tunnur þegar þeir átta sig á því að endurvinnsluefnið er aðeins tæmt einu sinni í mánuði, svo þetta hefur allt tekið sinn tíma,“ segir Helgi.

Endurvinnslutunnur eru víða troðfullar en Terra hætti að rukka fyrir tunnurnar í maí og hætti þá jafnframt að sinna þeim við sérbýli. Í nóvember var hætt að þjónusta allar endurvinnslutunnur en tunnurnar verða teknar um leið og nýju sorphirðutunnurnar verða keyrðar út. Fólk er hvatt til þess að nota grenndargámana í millitíðinni. 

Troðfullar endurvinnslutunnur

Endurvinnslutunnur, sem staðið hafa Akureyringum til boða hjá Terra, voru lagðar af í sumar með tilkomu nýja flokkunarkerfisins. Tunnurnar standa hins vegar víða enn við hús, stútfullar af rusli en þær verða hvorki tæmdar né fjarlægðar fyrr en nýju tunnurnar koma. Þetta hefur valdið sóðaskap þar sem fólk virðist ekki hætta að henda í tunnurnar, þó þær séu löngu yfirfullar.

„Það voru kannski mistök að fjarlægja ekki endurvinnslutunnurnar strax. Við hættum að rukka fyrir þessar tunnur í maí og létum fólk vita um þessa þjónustubreytingu með sms-um, en það er alltaf snúið að ná til allra,“ segir Helgi og bætir við að ekki hafi verið hægt að halda báðum sorplosunarkerfum úti í einu og því hafi sú leið verið farin að leggja endurvinnslutunnuna af á meðan á umskiptunum stæði. Blaðamaður Akureyri.net hefur séð að í sumum fjölbýlishúsum í bænum hafa verið settar upp tilkynningar af húsfélögum þar sem íbúum er bent á að nota ekki endurvinnslutunnuna en víða virðist fólk annað hvort ekki átta sig á breytingunum, eða hreinlega ekki nenna út í næsta grenndargám með ruslið og skilur það frekar eftir við stútfullar endurvinnslutunnurnar.

Nýja sorphirðukerfið orðið smurt fyrir páska

Breytingarnar á flokkunarkerfinu hafa töluvert verið til umræðu meðal íbúa bæjarins og sitt sýnist hverjum. Óánægju hefur gætt sérstaklega hjá þeim sem voru búnir að koma sér upp dýrum sorptunnuskýlum áður en fjórflokkunni var komið á. Starfsfólk Terra og starfsfólk umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, hefur vissulega fengið sinn skerf af kvörtunum, þó bærinn hafi sannarlega reynt að koma til móts við íbúa með því að gefa þeim möguleika á tvískiptri tunnu fyrir plast og pappír. „Það er eðlilegt að einhverjir íbúar séu óánægðir þegar breytingar eru annars vegar enda geta þær valdið óþægindum á meðan þær standa yfir. Breytingarfasinn er alltaf erfiðastur en við vonumst til þess að nýja sorphirðukerfið verði farið að keyra smurt fyrir páska,“ segir Jón Birgir og bendir bæjarbúum á að fylgjast með fréttum af framvindu mála á heimasíðu og samfélagsmiðlum bæjarins.

Bæjarbúar hafa ekki alls staðar verið duglegir að fara með endurvinnsluefni á gámastöðvar. Þessi mynd er úr forstofu fjölbýlishúss þar sem endurvinnslutunnan er full.