Fara í efni
DNG

Draumadagur í lokin og Valur Snær meistari

Valur Snær Guðmundsson slær af fyrsta teig á lokadegi Akureyrarmótsins í gær. Þessi 17 ára Húsvíkingur sigraði með glæsibrag á mótinu. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Valur Snær Guðmundsson varð Akureyrarmeistari í golfi í fyrsta skipti í gær. Hann lék geysilega vel á síðasta degi mótsins, fór þá völlinn á þremur höggi undir pari og hafði níu högga forskot á Lárus Inga Antonsson í mótslok.

Valur Snær, sem er Húsvíkingur, er aðeins 17 ára. Hann fagnar 18 ára afmæli um næstu helgi.

Verðandi meistari var í þriðja sæti eftir fyrsta keppnisdag, aðeins tveimur höggum á eftir Örvari Samúelssyni sem hafði forystu, og einu höggi á eftir Lárusi Inga. Hann tók svo forystu á öðrum degi mótsins og hélt henni til loka.

Valur Snær byrjaði afar vel í gær, lék fyrstu þrjár brautirnar allar á einu höggi undir pari og næstu fjórar á pari. Tvær síðustu lék hann á einu yfir pari þannig að Valur Snær fór fyrri níu brautirnar á 35 höggum – einu undir pari.

Seinni níu brautirnar lék hann enn glæsilegar. Fyrstu fimm lék hann á pari og 15. brautina síðan á einu undir pari. Daginn áður lék Valur Snær 15. braut á þremur höggum, tveimur undir pari! Hann gef ekkert eftir á síðustu metrunum í gær; lék 16. braut á pari, 17. braut á einu undir pari og 18. og síðustu brautina á pari. Glæsileg spilamennska meistarans unga og sigurinn var sannarlega verðskuldaður.

Sólin brosti framan í keppendur alla fjóra daga Akureyrarmótsins og hlýtt var í veðri en sterk sunnanátt setti mikinn svip á mótið. Fyrstu þrjá dagana gerði rokið keppendum erfitt fyrir, en aðstæður voru mun betri í gær þar sem vind hafði lægt mikið. 

Efstir í meistaraflokki karla

  • 291 – Valur Snær Guðmundsson
    (75 - 72 - 76 - 68) samtals 7 yfir pari
  • 300 – Lárus Ingi Antonsson
    (74 - 79 - 73 - 74) samtals 16 yfir pari
  • 304 – Örvar Samúelsson
    (73 - 78 - 81 - 72) samtals 20 yfir pari
  • 306 – Tumi Hrafn Kúld
    (77 - 77 - 76 - 76) samtals 22 yfir pari
  • 309 – Viðar Steinar Tómasson
    (77 - 76 - 80 - 76) samtals 25 yfir pari

Smellið hér til að sjá efstu kylfinga í öllum flokkum Akureyrarmótsins.

Þrír efstu fyrir síðasta keppnisdag voru saman í holli, frá vinstri: Lárus Ingi Antonsson, Valur Snær Guðmundsson og Tumi Hrafn Kúld.

Örvar Samúelsson hafði forystu eftir fyrsta dag Akureyrarmótsins og endaði í þriðja sæti. Hér er slær hann af teig á fyrsta degi mótsins.