Fara í efni
DNG

Andrea og Veigar léku best Akureyringanna

Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Veigar Heiðarsson á Íslandsmótinu á Hólmsveilli um helgina. Myndir: Golfsamband Íslands - Sigurður Elvar Þórólfsson

Veigar Heiðarsson og Andrea Ýr Ásmundsdóttir léku best Akureyringa á Íslandsmótinu í golfi sem fram fór á velli Golfklúbbs Suðurnesja, Hólmsvelli í Leiru, og lauk í gær.

Veigar varð í 18. sæti, á einu höggi yfir pari vallarins, 15 höggum á eftir Íslandsmeistaranum. Andrea Ýr varð í 10. sæti á 17 höggum yfir pari vallarins, 12 höggum á eftir Íslandsmeistaranum.

Íslandsmeistarar að þessu sinni urðu Hulda Clara Gestsdóttir og Aron Snær Júlíusson, bæði úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG).  Þetta er annar Íslandsmeistaratitill beggja, þau sigruðu bæði síðast þegar Íslandsmótið var haldið á Jaðarsvelli á Akureyri, árið 2021.

Íslandsmótið stendur í fjóra daga og leiknar eru 18 holur á dag, alls 72.  Mikið hvassvirði var í Leirunni í gær, á lokadegi mótsins, og gekk keppendum misvel að ráða við aðstæður.

Veigar Heiðarsson horfir einbeittur á eftir boltanum á Íslandsmótinu um helgina. Mynd: Golfsamband Íslands - Sigurður Elvar Þórólfsson

Aron Snær Júlíusson lék á 270 höggum, 14 undir pari vallarins, sem er mótsmet. Aron Emil Gunnarsson Golfklúbbi Selfoss varð í öðru sæti, tveimur höggum á eftir Aroni Snæ.

Keppnin í karlaflokki var mjög hörð og vallarmet var slegið tvo daga í röð.  Á öðrum degi lék Böðvar Bragi Pálsson, Golfklúbbi Reykjavíkur, á 64 höggum og degi síðar fór Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, völlinn á 63 höggum.

Árangur Akureyringa varð sem hér segir:

  • 285 – Veigar Heiðarsson, 18. sæti (74 - 66 - 69 - 76) samtals 1 höggi yfir pari
  • 286 – Tumi Hrafn Kúld, 21. sæti (72 - 73 - 70 - 71) 2 högg yfir pari
  • 292 – Mikael Máni Sigurðsson, 41. sæti (74 - 74 - 73 - 71) átta högg yfir pari
  • 296 – Óskar Páll Valsson, 54. sæti (73 - 75 - 69 - 79) 12 högg yfir pari

Aðrir komust ekki í gegnum niðurskurð að loknum tveimur keppnisdögum:

Valur Snær Guðmundsson 150 (75 - 75), Víðir Steinar Tómasson 153 (72 - 81), Örvar Samúelsson (77 - 77) 154, Lárus Ingi Antonsson (74 - 81) 155,  Eyþór Hrafnar Ketilsson (76 - 79) 155.

Smellið hér til að sjá skor allra keppenda í karlaflokki.

Íslandsmeistarinn Aron Snær Júlíusson setti mótsmet um helgina sem fyrr segir. Hann lék samtals á 12 höggum undir pari. Gamla metið átti Bjarki Pétursson, GKG, sem lék á 13 höggum undir pari þegar Íslandsmótið fór fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ árið 2020.

Met Magnúsar stóð í 39 ár

Akureyringurinn Magnús Guðmundsson setti nýtt viðmið í íslensku keppnisgolfi þegar Íslandsmótið fór fram í Vestmannaeyjum árið 1964. Hann varð þá fyrstur allra til að leika undir pari vallar á Íslandsmótinu og gerði reyndar gott betur en það; Magnús lék völlinn í Eyjum á hvorki meira né minna en 10 höggum undir pari! Hann sigraði með fáheyrðum yfirburðum eins og nærri má geta – með 25 högga mun. Magnús lék á 270 höggum en næstu tveir á 295.

Akureyri.net rifjaði upp þetta afrek Magnúsar og ýmislegt fleira um Akureyringa á Íslandsmótinu í golfi, þegar mótið fór síðasta fram á Akureyri, sumarið 2021:

Met Magnúsar stóð í 39 ár. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, lék á 10 höggum undir pari þegar hann varð Íslandsmeistari í sjötta skipti árið 2014. Þá fór Íslandsmótið fram á Leirdalsvelli hjá GKG.

Andrea Ýr Ásmundsdóttir slær á Hólmsvelli í Leiru um helgina. Mynd: Golfsamband Íslands - Sigurður Elvar Þórólfsson

Hulda Clara Gestsdóttir tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í gær eins og fram kom í upphafi. Hún lék holurnar 72 á samtals 289 höggum. Meistarinn lék því alls á fjórum höggum yfir pari, einu höggi betur en Ragnhildur Kristinsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur, Íslandsmeistari síðasta árs.

Árangur Akureyringa varð sem hér segir:

  • 301 – Andrea Ýr Ásmundsdóttir, 10. sæti (78 - 74 - 75 - 74) samtals 17 högg yfir pari
  • 310 – Bryndís Eva Ágústsdóttir, 18. sæti (76 - 80 - 75 - 79) 26 högg yfir pari
  • 328 – Kara Líf Antonsdóttir, 35. sæti (80 - 78 - 91 - 79) 44 högg yfir pari

Smellið hér til að sjá skor allra keppenda í kvennaflokki.

Tumi Hrafn Kúld lék næst best akureyrsku karlanna á Íslandsmótinu, var einu höggi á eftir Veigari Heiðarssyni. Mynd: Golfsamband Íslands - Sigurður Elvar Þórólfsson