Fara í efni
Covid-19

Tónleikarnir miklu á Dalvík – MYNDIR

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fiskidagurinn mikli var haldinn í 20. skipti á Dalvík í gær og gekk allt eins og í sögu, að sögn Júlíusar Júlíussonar framkvæmdastjóra þessarar miklu fjölskylduhátíðar. Íbúar sveitarfélagsins eru um 1.900 en lögregla telur að um 40.000 manns hafi sótt hátíðina.

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, voru heiðursgestir Fiskidagsins mikla að þessu sinni. Eliza hélt Vinátturæðuna 23 á Vináttukeðjunni, setningarhátíðinni á föstudagskvöldinu, og Guðni var ræðumaður dagsins í gær. 

Fiskidagstónleikarnir í gærkvöldi á hafnarsvæðinu voru stórbrotnir. Talið er að um 25 þúsund hafi verið þar saman komin og skemmtunin lét líklega engan ósnortinn, hvert magnaða atriðið rak annað og fjöldinn skemmti sér konunglega.

Dalvíkingarnir Friðrik Ómar, Eyþór Ingi Gunnlaugsson og Matthías Matthíasson hófu dagskrána og voru yfir og allt um kring, en fjöldi annarra steig á svið; Selma Björnsdóttir, Diddú, Kristján Jóhannsson, 200.000 naglbítar, Jögvan Hansen, Magni Ásgeirsson, knattspyrnukappinn Rúrík Gíslason – bæði sem dansari og söngvari – Eiríkur Hauksson, Diljá Pétursdóttir, Herbert Guðmundsson ...

Þegar styttist í flugeldasýningu steig Herbert á svið og flutti gamla smellinn Can't walk away. Góð hugmynd að láta Hebba ljúka prógramminu, hafa líklega margir hugsað.

Nei, nei - steig þá ekki Tina Turner á svið á eftir honum, að vísu þingkonan Inga Sælandi í hlutverki Tinu heitinnar og dúndraði Simply the best með stæl yfir hafnarsvæðið.

Góður endir það!

Það reyndist svo heldur ekki síðasta atriðið á sviðinu! Það kom í hlut Audda og Steinda – Auðuns Blöndal og Steinþórs Hróars Steinþórssonar –  að setja punktinn yfir i-ið.

Sá síðarnefndi spurði í einlægni: Hvað erum við að gera hér innan um alla bestu söngvara Íslands? Við kunnum ekkert að syngja.

Nei, en við kunnum að halda uppi stuðinu!

Svo gerðu þeir hreinlega allt vitlaust, eins og stundum er sagt ... Tóku nokkur lög, þar á meðal eigið þjóðhátíðarlag við mikil fagnaðarlæti og fjöldinn söng með.

Allir skemmtikraftarnir birtust svo á sviðinu og dönsuðu kónga með bros á vör, áður en ljósin voru slökkt og við tók stórbrotin flugeldasýning björgunarsveitarinnar á Dalvík.

Fiskidagurinn mikli er sannarlega mikið ævintýri!