Fara í efni
Covid-19

Fiskidagurinn: Guðni og Eliza heiðursgestir

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, á Fiskideginum mikla árið 2016. Lengst til vinstri er Margrét Ásgeirsdóttir og hægra megin Linda Holm. Ljósmynd: Atli Rúnar Halldórsson

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid heiðra Fiskidaginn mikla á Dalvík og gesti hans í ár með nærveru sinni. Þau taka bæði þátt í dagskrá samkomunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þessi mikla fjölskylduhátíð er nú haldin í 20. skipti. Fiskidagurinn mikli er á laugardaginn, en dagskrá hátíðarinnar hefst í raun í dag og lýkur ekki fyrr en á sunnudaginn, 13. ágúst.

  • Eliza flytur ávarp á vináttukeðjunni, hinni formlegu setningarathöfn Fiskidagsins, neðan við Dalvíkurkirkju að lokinni messu kl. 18.00 föstudaginn 11. ágúst.
  • Forsetinn verður ræðumaður dagsins á hátíðarsviði Fiskidagsins mikla kl. 14.15 laugardaginn 12. ágúst.

„Guðni Th. Jóhannesson var heiðursgestur Fiskidagsins mikla árið 2016 og hafði þá einungis gegnt embætti forseta Íslands í fjóra sólarhringa þegar leið þeirra hjóna lá norður í Dalvíkurbyggð og fjörið þar. Hann tók við embættinu mánudaginn 1. ágúst 2016 við athöfn í Alþingishúsinu og forsetahjónin voru síðan hyllt af miklum mannfjölda á Austurvelli,“ segir í tilkynningu frá Fiskideginum mikla.

„Föstudaginn 5. ágúst voru forsetahjónin við Fiskidagsmessu í Dalvíkurkirkju og hann ávarpaði síðan gesti vináttukeðjunnar í brakandi blíðu neðan við kirkjuna. Gríðarlegur mannfjöldi hlýddi á ávarpið og fylgdist með af áhuga enda höfðu fæstir viðstaddra séð nýja þjóðhöfðingjann í eigin persónu eða hlýtt á mál hans eftir að hann tók við embættinu.

Forsetahjónin og fylgdarlið gengu um Dalvík að kvöldi föstudagsins, þáðu súpu hér og þar og ræddu við fólk á förnum vegi. Daginn eftir fóru þau um hátíðarsvæðið við höfnina. Þeim þótti auðheyrilega mikið til koma að kynnast öllu því sem fyrir augu og eyru bar í heimsókninni.“

Guðni Th. Jóhannesson ávarpar mannfjöldann á Dalvík föstudaginn 5. ágúst árið 2016. Ljósmynd: Atli Rúnar Halldórsson