Þórsliðið átti litla möguleika gegn Val

Kvennalið Þórs í körfuknattleik mátti sætta sig við annað tap gegn Val í einvígi liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóstins, Bónusdeildarinnar. Valur tók frumkvæðið strax í fyrsta leikhluta og hélt forystunni út leikinn.
Valur vann fyrsta leikhlutann með 13 stiga mun og svo næstu þrjá með fimm, fimm og fjögurra stiga mun. Munurinn 18 stig eftir fyrri hálfleikinn og 29 stig í leikslok. Það þarf líklega ekki að hafa mörg orð um leikinn sjálfan. Það sama var uppi á teningnum í dag og í fyrsta leiknum, mikið álag á lykilleikmönnum í byrjunarliðinu vegna meiðsla sem hrjá aðra lykilleikmenn.
Enn eru það meiðsli lykilleikmanna sem há Þórsliðinu núna þegar langt er liðið á keppnistímabilið og virkilega svekkjandi að lenda í því að missa mikilvæga leikmenn í meiðsli eftir frábært gengi í deildinni lengst af.
Eva Wium Elíasdóttir skoraði flest stig Þórsliðsins, 22. Athygli vekur að af 19 villum sem Valsliðið fékk á sig voru 11 fyrir brot á Evu. Eva var einnig stigahæst í Þórsliðinu í fyrsta leik einvígisins, skoraði þá 26 stig.
- Valur - Þór (25-12) (26-21) 51-33 (24-19) (27-23) 102-75
Ítarleg tölfræði leiksins
Helstu tölur leikmanna Þórs, stig, fráköst og stoðsendingar:
- Eva Wium Elíasdóttir 22 - 5 - 4
- Amandine Toi 19 - 3 - 6 - 20 framlagsstig
- Maddie Sutton 14 - 8 - 3
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 10 - 6 - 1
- Hanna Gróa Halldórsdóttir 6 - 1 - 3
- Karen Lind Helgadóttir 4 - 2 - 1
- Katrín Eva Óladóttir og Adda Sigríður Ásmundsdóttir náðu ekki að skora.
- Hrefna Ottósdóttir og María Sól Helgadóttir sem voru varamenn komu ekki við sögu í leiknum.