Fara í efni
Covid-19

Lundinn í Grímsey var á undan áætlun

Mynd: María H. Tryggvadóttir

Fyrstu lundarnir settust upp í Grímsey um helgina. Sjómenn höfðu séð til þeirra á sjó við eyjuna um mánaðamótin en mögulega hefur einstaklega fallegt veður síðustu daga orðið til þess að lundarnir hafi freistast til að hefja vorstörfin fyrr en ella. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.

Þar segir: „Lundarnir eyða mestöllu lífi sínu á hafi úti en á vorin snúa þeir aftur að varpstöðvunum og hefja þá strax leit að gömlu varpholunni sinni, hreinsa hana og undirbúa fyrir sumarið framundan. Þessir heillandi sjófuglar setjast vanalega upp í eyjunni um 10. apríl og dvelja í eyjunni yfir varptímann og fram á sumarið áður en þeir snúa aftur út á sjó um 10. ágúst.“

Grímsey er án efa einn af bestu stöðunum á Íslandi til að sjá og ljósmynda lunda – ásamt þúsundum annarra sjófugla sem halda til í Grímsey yfir vorið og sumarið.

Á vef Akureyrarbæjar má sjá þennan fróðleik um lundann:

  • lundar maka sig fyrir lífstíð og snúa árlega aftur á sama varpstaðinn
  • litskrúðugi goggurinn sést eingöngu á varptímanum – aðra hluta ársins eru þeir furðu látlausir
  • lundar eru frábærir sundfuglar og geta kafað á allt að 60 metra dýpi eftir fæðu