Fara í efni
Covid-19

Grímseyingar munu fá viðbót án vinnsluskyldu

Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Byggðastofnun auglýsti í gær viðbótaraflaheimildir án vinnsluskyldu fyrir Grímsey, allt að 300 þorskígildistonnum fyrir fiskveiðiárin 2024/2025. Þetta kemur fram í frétt á vef Akureyrarbæjar í dag. Þar er vitnað í Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra sem segir það ákaflega ánægjulegar fréttir að Grímseyingum hafi verið veitt undanþága frá vinnsluskyldu þegar kemur að úthlutun á sértækum byggðakvóta. 

Ásthildur segir: „Það er mikilvægt fyrir íbúa Grímseyjar að búa við fyrirsjáanleika eins og önnur samfélög og þessi niðurstaða verður til þess að renna styrkari stoðum undir byggðina í eyjunni. Ef sjómenn í Grímsey hefðu ekki lengur heimild til að stunda fiskveiðar eins og þeir hafa gert mann fram af manni frá því land byggðist þá væru forsendur fyrir búsetu þar brostnar. Sjávarútvegur í Grímsey hefur átt undir högg að sækja og ég gleðst yfir því að undanþága frá vinnsluskyldu sé veitt því fiskinum þarf alltaf að koma til lands sem fyrst, með einum eða öðrum hætti, svo verðmæti hans séu sem mest.“

Grímseyingar geta sótt um viðbótaraflaheimildir í gegnum umsóknargátt á vef Byggðastofnunarinnar fyrir kl. 12.00 þriðjudaginn 10. desember.