Óhugsandi að línan fari ekki í jörðu
Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, segir óhugsandi í sínum huga að fyrirhuguð háspennulína, Blöndulína 3, verði ekki lögð í jörðu í landi Akureyrar, frá sveitarfélagsmörkum að Rangárvöllum. Þetta kemur fram í svari hennar við spurningu lesanda Akureyri.net. Fulltrúi Landsnets sagði í sjónvarpsfréttum RÚV á dögunum að ekki kæmi til greina að leggja línuna í jörðu þótt aðalskipulag Akureyrar geri ráð fyrir því.
Spurning lesandans var svohljóðandi:
- Háspennulína, Blöndulína 3, er stórmál en ég er algjörlega mótfallinn því að það verði loftlína ofan við Giljahverfi og Móahverfi og að Rangárvöllum. Aðalskipulag Akureyrar gerir ráð fyrir að línan fari í jörðu frá sveitarfélagsmörkum og að Rangárvöllum. Fulltrúi Landsnets sagði í RÚV um daginn að ÞAÐ KÆMI EKKI TIL GREINA að leggja línuna í jörðu á þessum kafla.
- Kjósendur verð að fá skýr svör frá öllum framboðum um þetta. Kemur til greina að mati framboðanna að falla frá því sem segir í aðalskipulagi bæjarins og gefa eftir þannig að Landsnet fái að hafa þetta loftlínu. Ég veit að það er stórmál að fá þetta rafmagn en líka STÓRMÁL að vita hvort komi til greina að bærinn gefi eftir. Ég verð að vita þetta áður en ég greiði atkvæði.
SVAR HILDU JÖNU – Í mínum huga er óhugsandi að koma ekki þessari línu í jörðu enda fer línan bæði nálægt núverandi Giljahverfi og væntanlegu Móahverfi sem og þrengir að landi okkar ört vaxandi bæjarfélags. Ég vil einfaldlega ekki trúa því að ekki sé hægt að finna leiðir til þess að ganga frá þessu máli hratt og örugglega í samstarfi við Landsnet.
Akureyri.net sendi öllum framboðum í bæjarstjórnarkosningunum um næstu helgi spurningar frá lesendum á dögunum. Eitt svar hefur borist, frá Flokki fólksins, og þegar verið birt.
Þrjár spurningar til viðbótar voru sendar í morgun og svar barst um hæl frá Hildu Jönu. Svör hennar við hinum tveimur spurningunum verða birt síðar í dag.