Fara í efni
Blöndulína 3

Vilja möguleikann á loftlínu út úr tillögunni

Horft til norðurs. Neðst fyrir miðri mynd eru höfuðstöðvar Norðurorku og tengivirkið á Rangárvöllum þar sem Blöndulína 3 endar. Myndir: Þorgeir Baldursson

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar vill að Blöndulína 3, háspennulínan sem Akureyri.net hefur reglulega fjallað um, verði lögð sem jarðstrengur í bæjarlandinu. Ráðið gengur svo langt að leggja til að möguleiki á loftlínu verði felldur út úr tillögu um breytingu á aðalskipulagi sem skipulagsráð bæjarins samþykkti í desember og hefur verið auglýst. 

Umhverfis- og mannvirkjaráð er því á öndverðum meiði við meirihluta skipulagsráðs í þessu umdeilda máli. 

Í skipulagsráði samþykktu fulltrúar L-lista, Miðflokksins, VG og einn óháður tillögu um breytingu á aðalskipulagi í því skyni að mögulegt yrði að háspennustrengurinn yrði loftlína. Aðeins fulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði á móti. 

Á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs í vikunni var hins vegar einhugur um eftirfarandi umsögn vegna lagningar Blöndulínu 3 í gegnum land Akureyrarbæjar frá norðri að Rangárvöllum:

Út frá umhverfissjónarmiðum og framtíðarhagsmunum Akureyrarbæjar þá leggur umhverfis- og mannvirkjaráð til að háspennulögnin verði sett í jarðstreng í breytingartillögunni og felldur niður möguleikinn á loftlínu. Þá vekur umhverfis- og mannvirkjaráð athygli á því að umrædd loftlína myndi hafa neikvæð áhrif á íbúa og umhverfi. Gildandi skipulag þjónar þróunarmöguleikum Akureyrarbæjar betur.

Þessa umsögn samþykktu fulltrúar L-lista, Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en fulltrúi Framsóknar lýsti sig vanhæfan og tók ekki þátt í umfjöllun um málið.

Frestur til að koma ábendingum á framfæri – gera athugasemdir við skipulagstillöguna – er til fimmtudags í næstu viku, 23. janúar.
 

Krafa Akureyrarbæjar var sú að strengurinn yrði lagður í jörð en Landsnet sagði það ekki koma til greina; það væri ekki tæknilega mögulegt eins og er. Ýmsir hafa mótmælt því að strengurinn verð loftlína, meðal annars íbúar í Giljahverfi og hestamannafélagið Léttir. Miðað við auglýsta breytingu mun strengurinn liggja yfir hluta skeiðbrautar keppnis- og kynbótavallar hestamannafélagsis, að því er segir í athugasemdar stjórnar

Gert er ráð fyrir að Blöndulína liggi um það bil þar sem rauða línan er dregin. Þetta er þó ekki nákvæm merking.

HVER ERU VERKEFNI RÁÐSINS?

Á vef Akureyrarbæjar segir svo um Umhverfis- og mannvirkjaráð:

  • Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar fjallar um umhverfismál í bæjarlandinu og framkvæmdir í umboði bæjarstjórnar Akureyrar.
  • Ráðið gerir tillögur til bæjarstjórnar um stefnumörkun á sviði umhverfismála og um reglur um meðferð mála er varða náttúruvernd, friðlýst svæði og náttúruminjar, og umhirðu lóða í bæjarlandinu.
  • Umhverfis- og mannvirkjaráð gerir jafnframt tillögur til bæjarstjórnar um stefnu í málefnum sem tengjast verklegum framkvæmdum á vegum bæjarins.
  • Ráðið hefur yfirumsjón með umhverfis- og mannvirkjasviði sem sér um undirbúning framkvæmda og framkvæmdir við götur, gangstéttir og stíga, jarðeignir og lönd, garða, gatnahreinsun, leiksvæði og opin svæði, dýraeftirlit, eignaumsýslu ásamt innkaupum og útboðum vegna framangreindra þátta.
  • Ennfremur heyra málefni fasteigna Akureyrarbæjar, brunavarna og slökkviliðs undir umhverfis- og mannvirkjaráð ásamt almenningssamgöngum.