Fara í efni
Blak

Þór tapaði stórt fyrir Fjölni í fyrsta leik

Tim Dalger var atkvæðamestur í sóknarleik Þórs í kvöld eins og svo oft áður og gerði 26 stig. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar sóttu ekki gull í greipar leikmanna Fjölnis í kvöld þegar liðin mættust fyrsta sinni í umspili um sæti í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Bónusdeildarinnar. Fjölnir sigraði með 32 stiga mun á heimavelli í Grafarvogi Reykjavíkur, 100:68. Um er að ræða átta liða úrslit og þrjá sigra þarf til að komast áfram.

Skemmst er því að segja að Fjölnismenn unnu fyrsta leikhluta með 10 stiga mun, þanng næst með níu stigum og þann þriðja með 11 stigum. Það var sem sagt aldrei spurning hvort liðið var betra, munurinn í fjórða og síðasta leikhluta var tvö stig, þá fengu minni spámenn að spreyta sig enda úrslitin löngu ráðin.

Tim Dalger skoraði mest Þórsara í kvöld, 26 stig, og tók níu fráköst, Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson gerði 10 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar og Andrius Globy gerði átta stig, tók níu fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Liðin mætast öðru sinni á mánudagskvöldið klukkan 19.15, í Íþróttahöllinni á Akureyri.