Fara í efni
Blak

Þór/KA fékk silfrið í Lengjubikarnum

Sonja Björg Sigurðardóttir, til vinstri, skoraði fyrir Þór/KA í kvöld. Hér er hún í undanúrslitaleiknum gegn Stjörnunni á mánudaginn og við hlið hennar Jakobína Hjörvarsdóttir sem lék með Þór/KA áður hún hélt suður í nám. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 4:1 fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld, í úrslitaleik Lengjubikarkepni kvenna í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á heimavelli meistaranna í Kópavogi.

Blikarnir byrjuðu af krafti og voru raunar mun betri allan fyrri hálfleikinn. Samantha Rose Smith kom þeim yfir strax á þriðju mínútu og 20 mín. síðar breytti Birta Georgsdóttir stöðunni í 2:0.

Leikmenn Þórs/KA ógnuðu marki Blikanna tvisvar seinni hluta hálfleiksins; fyrst skallaði Hildur Anna Birgisdóttir naumlega framhjá eftir fyrirgjöf Huldu Óskar Jónsdóttur og markvörður Blika varði fast skot Söndru Maríu Jessen utarlega ur vítateignum, en annars komst Þór/KA lítt áleiðis.

Allt annað var að sjá til Stelpnanna okkar þegar flautað var til síðari hálfleiks. Sjálfstraust virtist skyndilega komið í hópinn, óttinn við að halda boltanum var horfinn og Þór/KA hafði yfirhöndina fyrstu 20 mínuturnar.

Þegar 10 mín. voru liðnar minnkaði Sonja Björg Sigurðardóttir muninn. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir sendi boltann utan af hægri kanti og Sonja stangaði hann í markið með viðkomu í varnarmanni.

Nokkrum mínútum síðar var Þór/KA nálægt því að jafna. Sandra María Jessen komst í dauðafæri; fékk sendingu inn fyrir vörnina en missti boltann örlítið of langt frá sér þannig að markvörðurinn náði að bjarga. Örskömmu síðar skallaði Sonja Björg hárfínt framhjá af stuttu færi eftir góða fyrirjöf og ekki fór á milli mála að norðanstúlkur voru með yfirhöndina á þessum kafla leiksins.

En skjótt skipast veður í lofti ... Tveimur mín. eftir að Sonja skallaði rétt framhjá marki Blika skoraði Barbára Sól Gísladóttir hinum megin. Var illa völduð á markteignum og skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Þar með var von Þórs/KA orðin lítil og á lokasekúndu leiksins gulltryggði Andrea Rut Bjarnadóttir sigur Breiðabliks með stórglæsilegu marki; skaut utan vítateigs og boltinn sveif upp í samskeytin. Óverjandi skot sem reyndist síðasta spyrna leiksins.

Leikskýrslan