KA-menn í sumarfrí eftir auðveldan sigur

KA-menn unnu nokkuð þægilegan sigur á Fjölni í Grafarvogi í kvöld, 33:29, í lokaumferð Olísdeildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta. Lokatölur urðu 33:29 eftir að KA hafði níu marka forystu í hálfleik, 20:11.
Leikurinn skipti engu máli upp á lokastöðu í deildinni, Fjölnir var þegar fallinn niður í næst efstu deild, Grill66 deildina, og KA átti ekki lengur möguleika á sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.
KA tók frumkvæðið fljótlega og jók muninn jafnt og þétt þar til fyrri hálfleikurinn var á enda. Framan af seinni hálfleik voru KA-mönnum hins vegar mislagðar hendur, svo ekki sé meira sagt; þegar 10 mín. voru liðnar höfðu Fjölnismenn gert níu mörk gegn fjórum mörkum KA-strákanna og munurinn kominn niður í fjögur mörk, 24:20,. Þá náðu KA-menn að rétta kúrsinn á ný og munurinn var orðinn átta mörk þegar um miðjan hálfleikinn. Lið Fjölnis náði minnkaði muninn á ný á lokakaflanum en sigur gestanna var þó aldrei í hættu.
Mörk KA: Einar Rafn Eiðsson 11 (5 víti), Dagur Árni Heimisson 8, Jens Bragi Bergþórsson 5, Einar Birgir Stefánsson 4, Ott Varik 2, Patrekur Stefánsson 1, Logi Gautason 1, Arnór Ísak Haddsson 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt 16 (39%), Bruno Bernat 1 (25%)