Idol í beinni á Vamos, Birkir syngur tvö lög
Næst síðasti þáttur sænsku Idol söngkeppninnar á sjónvarpsstöðinni TV4 er á dagskrá í kvöld. Birkir Blær Óðinsson er einn fjögurra keppenda sem eftir eru, eins og lesendur Akureyri.net vita mætavel.
Hver keppandi syngur tvö lög í kvöld; Birkir flytur Sign of the times, geysivinsælt og flott lag sem Englendingurinn Harry Styles samdi og gaf út 2017, og Are you gonna be my girl sem ástralska hljómsveitin Jet sendi frá sér 2003.
Þáttur kvöldsins verður í beinni útsendingu á veitingastaðnum Vamos við Ráðhústorg á Akureyri. Þar ætla fjölskylda Birkis og vinir að hittast og horfa á keppnina og að sjálfsögðu eru allir velkomnir, að sögn forráðamanna staðarins.
Tveir keppendur fara áfram í kvöld – og keppa svo til úrslita Globen höllinni (Aviici Arena) í Stokkhólmi eftir viku, föstudagskvöldið 10. desember. Fastlega er gert ráð fyrir því í Svíþjóð eftir frábæra frammistöðu Birkis Blæs í hverjum þættinum á fætur öðrum að hann verði annar þeirra sem verða á sviðinu í Globen.