Birkir Blær: Nýtt lag og tónleikar á LYST
Birkir Blær heldur tónleika á LYST í Lystigarðinum á laugardaginn þar sem hann mun flytja blöndu af nýju og gömlu efni ásamt vel völdum ábreiðum. Á tónleikunum mun Birkir einnig syngja glænýtt lag sem kemur út á morgun, daginn fyrir tónleikana.
Nýja lagið heitir Leaders og fjallar um „hvernig leiðtogar heimsins láti stjórnast af græðgi í stað þess að beita sér að umhverfismálum og hunsi hlýnun jarðar,“ segir Birkir Blær. Lagið sjálft, ef allt er tekið út nema gítar og söngur, myndi flokkast sem soul en útsetningin er innblásin af alls konar tónlist; bassi og trommur eru til dæmis í hiphop stíl og rafmagnsgítarinn svolítið rokkaður, syntharnir í einhverskonar r&b stíl, segir hann. „Því er kannski svolítið erfitt að flokka lagið, en ætli maður myndi ekki kalla þetta alternative-soul eða eitthvað svoleiðis,“ segir hann.
Birkir samdi lagið sjálfur og textann ásamt Pétri Má Guðmundssyni. Birkir Blær og Hreinn Orri Óðinsson útsettu, Sæþór Kristjánsson hljóðblandaði og Glenn Schick masteraði.
Birkir Blær er 24 ára Akureyringur. Hann sigraði í sænsku Idol söngkeppninni á sjónvarpsstöðinni TV4 í desember árið 2021 eins og margir muna eflaust og hefur verið búsettur í Stokkhólmi undanfarin ár. Hann er söngvari, lagasmiður, hljóðfæraleikari og pródúsent. Hann kveðst ekki vilja festa eigin tónlist í einum ákveðnum flokki, segist fá innblástur úr öllum áttum en allra helst frá soul, blues og r&b. Birkir er reyndur tónlistarmaður, hann hefur haldið ótal tónleika og komið fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónlistarhátíðum. Hann hefur gefið út tónlist sem hefur nú verið streymt tæplega 6 milljón sinnum á Spotify.
Tónleikarnir á LYST í Lystigarðinum laugardaginn 30. mars hefjast kl. 20.30. Miðaverð er 3.500 krónur. Nánar hér um tónleikana.
Hægt er að fylgja Birki Blæ á öllum samfélagsmiðlum og tónlistarveitum hér: https://birkirblaer.fanlink.tv/birkirblaer