Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

UFA bikarmeistari 15 ára og yngri í frjálsum

Bikarmeistarar Ungmennafélags Akureyrar í flokki 15 ára og yngri. Mynd: UFA

Lið Ungmennafélags Akureyrar (UFA) varð bikarmeistari 15 ára og yngri þegar bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram á Kópavogsvelli á dögunum. Þetta er í fyrsta skipti i sögu UFA sem þessi titill vinnst.

UFA sigraði örugglega í keppni drengja, stúlknasveitin varð í þriðja sæti og samanlagt fékk UFA 116,5 stig, tveimur meira en ÍR. Úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu grein og sigurinn var eðlilega mjög sætur.

Átta lið voru skráð til leiks og keppt í níu einstaklingsgreinum og 1000 metra boðhlaupi.

  • Tobias Þórarinn Matharel hefur verið í miklu stuði í sumar og setti Íslandsmet í 100m grindahlaupi. Hljóp vegalengdina á 13,78 sekúndum.
  • Tobias varð einnig bikarmeistari í langstökki – stökk lengst 6,20 metra og sigraði með yfirburðum.
  • Arnar Helgi Harðarson setti mótsmet í bæði 80m hlaupi (9,64 sek) og 300m hlaupi (40,44 sek).
  • Garðar Atli Gestsson sigraði í spjótkasti með nokkrum yfirburðum – kastaði 44,58 metra.
  • Emelía Rán Eiðsdóttir varð bikarmeistari í kringlukasti – kastaði 39,11 metra.
  • Emelía Rán varð í öðru sæti í kúluvarpi, kastaði 10,39 metra, sem er persónulegt met.
  • Guðrún Hanna Hjartardóttir var einng drjúg; hún varð í öðru sæti í 80m hlaupi (11,00 sek) og hástökki (1,58 m).

Tobias Þórarinn Matharel í langstökkskeppninni í Kópavogi. Hann sigraði með yfirburðum í greininni. Mynd: FRÍ

UFA sendi eitt karlalið og eitt kvennalið í bikarkeppni fullorðinna sem fram fór í Kópavogi á sama tíma. Karlaliðið hafnaði í fjórða sæti og kvennaliðið í fimmta sæti. 

Bikakeppni fer þannig fram að hver keppandi má bara keppa í þremur greinum auk boðhlaups. Átta félög sendu lið til keppni en alls er keppt í 12 greinum auk 1000m boðhlaups þannig að það reynir á breidd liðanna. Sigurvegari hverrar greinar fær átta stig, annað sæti gefur sjö stig og þannig koll af kolli.

UFA sendi síðast lið til bikarkeppni árið 2016 en þá sendu UFA og UMSE sameiginlegt lið í bikarkeppni fullorðinna „þannig að það er ákaflega gleðilegt að sjá þessa uppsveiflu UFA í frjálsum. Lið UFA er mjög ungt en flestir keppendur eru innan við tvítugt en njóta samt þess að fá eldri og reyndari keppendur með í liðið,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Elena Soffía Ómarsdóttir, sem er aðeins 17 ára, varð þriðja í spjótkasti. Mynd: UFA

Karlalið UFA fékk 55 stig. Þar var Sindri Lárusson var manna drýgstur í stigasöfnun, hann varð annar í kúluvarpi, fimmti í sleggjukasti og fimmti í kringlukasti. Sindri náði því í 15 stig fyrir félagið

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir varð öðru sæti í 3000 m hlaupi og hin 17 ára gamla Elena Soffía Ómarsdóttir náði þriðja sæti í spjótkasti.

Í heildarkeppni fullorðinna varð UFA í sjötta sæti með 95 stig.

Í tilkynningu UFA segir: Liðsstjórar UFA að þessu sinni vour þau Ágúst Bergur Kárason og Rún Árnadóttir. Að þeirra sögn var árangurinn vonum framar vegna þess að það eru margar stjörnur dregnar á flot þegar það er haldin bikarkeppni og því er mótið oft gríðarsterkt eins og í þetta skipti. Það þarf reynslu og hefðir til að mynda gott bikarlið og er framtíðin afar björt hjá UFA á komandi árum ef hópurinn stækkar og eflist. Árangur 15 ára og yngri liðsins var meiriháttar góður og eiga stelpurnar heiður skilið vegna þess að þær komu meira á óvart og „stálu“ mörgum stigum.

Bikarlið UFA ásamt þjálfurum og formanni félagsins, Jónu Finndisi Jónsdóttur. Mynd: UFA

Sindri Lárusson var drýgstur UFA-karlanna í stigasöfnun; varð annar í kúluvarpi, fimmti í sleggjukasti og fimmti í kringlukasti. Mynd: UFA

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (2376) í 3000 metra hlaupinu þar sem hún varð í öðru sæti. Mynd: FRÍ