Birnir Vagn Finnsson meistari í sjöþraut
Keppendur frá Ungmennafélagi Akureyrar (UFA) hafa byrjað nýja árið af krafti. Birnir Vagn Finnsson vann á dögunum Íslandsmeistaratitil í sjöþraut karla með sínum næstbesta árangri frá upphafi í stigum talið. Þá unnu sjö keppendur frá UFA samtals 16 gullverðlaun í eldri flokkum á Meistaramóti í sínum aldursflokkum, auk þrennra silfurverðlauna. Umfjöllun og myndir með fréttinni eru af vef UFA.
- Birnir Vagn Finnsson er Íslandsmeistari í sjöþraut karla þar sem keppt er í 60 metra hlaupi, langstökki, kúluvarpi, hástökki, 60 metra grinidahlaupi, stangarstökki og 1.000 metra hlaupi. Birnir náði sér í 4.343 stig, sem er hans næstbesti árangur frá upphafi.
- Garðar Atli Gestsson keppti í sjöþraut í flokki 16-17 ára þar sem hann náði í 3.344 stig og bætti sig í fjórum greinum.
- Dagur Pálmi Ingólfsson varð Íslandsmeistari í fimmþraut 15 ára drengja þar sem keppt er í 60 metra grindahlaupi, langstökki, hástökki, kúluvarpi og 800 metra hlaupi og bætti hann árangur sinn í þremur greinum. Dagur Pálmi vann fimmþrautina með yfirburðum, náði sér í 2.556 stig og fór þannig yfir lágmark fyrir unglingalandsliðið.
Sonja Sif Jóhannesdóttir vann til tvennra gullverðlauna í flokki 45-49 ára, Sigríður Hrefna Pálsdóttir vann til þrennra gullverðlauna í flokki 45-49 ára og Birnir Vagn Finnsson varð Íslandsmeistari í sjöþraut.
Ágúst Bergur Kárason er fimmfaldur Íslandsmeistari í flokki 50-54ra ára.
Eldri keppendur sópuðu að sér verðlaunum
Meistaramót Íslands í Mastersflokkum, eins og það er kallað, var haldið samhliða þrautamótinu og þar sópuðu keppendur frá UFA að sér verðlaunum, náðu næstflestum verðlaunum þeirra félaga sem áttu keppendur á mótinu, samtals 16 gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun.
- Ágúst Bergur Kárason varð fimmfaldur Íslandsmeistari í flokki 50-54ra ára, vann 60, 200 og 400 metra hlaup, langstökk og þrístökk, auk silfurverðlauna í hástökki.
- Unnar Vilhjálmsson vann Íslandsmeistaratitil í kúluvarpi.
- Anna Sofia Rappich vann 60 metra hlaup, langstökk og stangarstökk í flokki 60-64ra ára.
- Ebba Karen Garðarsdóttir vann 200 metra hlaup í flokki 35-39 ára og náði sér í silfurverðlaun í 60 metra hlaupi og kúluvarpi.
- Sonja Sif Jóhannesdóttir vann til gullverðlauna í 200 og 400 metra hlaupi í flokki 45-49 ára.
- Sigríður Hrefna Pálsdóttir vann langstökk, þrístökk og kúluvarp í flokki 45-49 ára.
- Eygló Ævarsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi í flokki 35-39 ára.
Unnar Vilhjálmsson á verðlaunapalli með gullverðlaun í kúluvarpi ásamt Yngva Karli Jónssyni úr Garpi og Elvari Heimi Guðmundssyni úr HSH.