Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Þykir vænt um mikil viðbrögð frá Íslandi

Akureyringurinn Baldvin Þór Magnússon hefur vakið mikla athygli undanfarið. Fyrst þegar hann setti Íslandsmet í 3.000 metra hlaupi innanhúss en svo skaut Baldvin í raun upp á hinn íslenska stjörnuhimin þegar hann stórbætti Íslandsmetið í 5.000 metra hlaupi utanhúss stuttu síðar – um 12 sekúndur!

Um fyrri helgi gerði Baldvin sér lítið fyrir og bætti enn eitt metið; Íslandsmetið í 1.500 metra hlaupi utanhúss, sem staðið hafði í 39 ár!

Metið kom á óvart

„Ég hef aðallega æft fyrir 5 kílómetra hlaup í vetur og þess vegna kom mér í raun á óvart ég skyldi bæta metið í 1.500 metrunum; reiknaði með að fara á 3 mín og 42 eða 43 sekúndum,“ sagði hann við Akureyri.net. Baldvin hljóp hinsvegar á 3:40,74 mínútum og þar féll loks metið sem Jón Diðriksson setti árið 1982.

Mjög misjafnt er hve hlauparar fara hratt í 800 og 1.500 metra hlaupum, stundum er hlaupið mjög taktískt þar sem ekki er keppt við tíma heldur um sæti, en í methlaupinu var áhersla lögð á hraðann, sem kom Baldvin vitaskuld vel. Hann er við nám í Eastern Michigan háskólanum í Bandaríkjunum og mótið – Rick Erdmann Twilight mótið í Richmend í Kentucy ríki – var hluti af mótaröð háskólanna.

Það var á fyrsta utanhússmóti ársins sem Baldvin setti metið í 5.000 metra hlaupinu. Nú styttist í hápunkta keppnistímabil háskólanna, nokkur mót framundan en það síðasta, lokamót NCAA, verður 12. júní.

Stefnir á verðlaun á EM

„Eftir það kem ég til Íslands og keppi svo á Evrópumeistaramóti 23 ára og yngri í Bergen,“ segir Baldvin, sem varð 22 ára fyrir nokkrum dögum, og segir að miðað við árangur sinn og jafnaldranna í Evrópu um þessar mundir stefni hann ótrauður á verðlaun í 5 kílómetra hlaupinu.

Hann náði lágmarki bæði í 5 km og 1500 m hlaupi fyrir Evrópumótið í Bergen en ekki liggur ljóst fyrir hvort hann keppir í báðum greinum. „Ég hef ekki séð tímalistann fyrir mótið, ég gæti hugsanlega verið með í báðum hlaupunum en mér finnst þó líklegt að ég verði bara með í 5 kílómetrunum.“

Annars segist hann lítið hafa hugsað um markmið sumarsins. „Það er ekki nema rúmur mánuður síðan ég ákvað að taka þátt í Evrópumótinu, en markmiðið er í raun alltaf það sama – einfaldlega að bæta mig jafnt og þétt. En langtímamarkmiðið er að keppa á Ólympíuleikunum eftir þrjú ár, það verður gott að hafa góðan tíma til að búa sig undir þá.“

Baldvin nemur íþróttafræði í Eastern Michigan, er á þriðja ári og lýkur námi næsta vor en ætlar að keppa áfram fyrir skólann eftir að námi lýkur. „Ég er með styrk í tvö ár eftir það. Hér eru frábærir þjálfarar, frábærir æfingafélagar og snilldar aðstaða þannig að ég gæti ekki verið á betri stað. Hér ætla ég að æfa næstu tvö ár.“

Er að sjálfsögðu Íslendingur

Foreldrar Baldvins eru bæði Akureyringar, þar fæddist hann og bjó fyrstu árin en fjölskyldan flutti til Hull í Englandi þegar Baldvin var fimm ára. Fjölskyldan kom heim til Íslands á hverju einasta sumri í mörg ár og dvöldu í mánuð eða einn og hálfan, enda nóg af ættingjum sem þurfti að heimsækja. Tengslin við Ísland eru því sterk. „Ég lít að sjálfsögðu alltaf á mig sem Íslending þótt ég hafi búið svona lengi úti, og þótt ég sé svolítill Breti líka.“

Hann hóf að æfa frjálsíþróttir 12 ára „en fór ekki að taka þær alvarlega fyrr en 16 eða 17 ára. Ég var í fótbolta og fleiri greinum heima í Hull en áttaði mig svo á því að ég var miklu betri í hlaupum en öðrum greinum. Fann hve skemmtilegt það var að vinna keppni í hlaupum og snéri því alveg að þeim.“

Baldvin segist hafa fengið mikil viðbrögð frá Íslandi eftir methlaupin undanfarið. „Mér finnst skemmtilegt hve Íslendingar hafa mikinn áhuga á hlaupum. Ég hef fengið ótrúlega mikil viðbrögð sem mér þykir mjög vænt um. Mér finnst viðbrögðin sýna hve Íslendingar standa vel saman þegar einhver stendur sig vel.“

Hann hefur mikin áhuga á knattspyrnu, eins og fjölmargir íbúar Bretlands. „Ég horfi mikið á fótbolta og held með Liverpool eins og pabbi,“ segir hann. Margir gleðjast án efa við að heyra það! „Við áttum hálfan ársmiða þegar ég bjó í Hull og sáum fullt af leikjum með Liverpool, sem var algjör snilld.“

Langar að keppa fyrir UFA

Baldvin hefur nokkrum sinnum tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu en aldrei keppt á braut hérlendis. „Sonja Sif [Jóhannsdóttir] sem tengist fjölskyldunni fékk mig til að skrá mig í UFA fyrir nokkrum árum, ég hef aldrei keppt fyrir félagið en langar mikið til þess! Vonandi verður af því fyrr en síðar,“ segir hann og það verður sannarlega gleðistund ef af verður. Gera má ráð fyrir því að næsta þegar Baldvin kemur næst til Akureyrar verði hann ekki bara í kaffiboðum með ættingjum, eða á hlaupabrautinni. „Þú mátt endilega nefna líka að fjöllin við Akureyri eru í miklu uppáhaldi hjá mér – ég hef mjög gaman af því að hlaupa þar!“ segir þessi snjalli akureyrski hlaupari, sem gaman verður að fylgjast með á næstu árum.

Hér er sagt frá Íslandsmetinu í 1500 metra hlaupi

Hér er sagt frá Íslandsmetinu í 3000 metra hlaupi

Hér er sagt frá Íslandsmetinu í 5000 metra hlaupi