Jafnaði fjórða besta tímann í maraþoni

Anna Berglind Pálmadóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar jafnaði fjórða besta tíma íslenskrar konu í maraþonhlaupi, í Barcelona á Spáni á sunnudaginn. Hún hljóp á 2 klst., 53 mín. og 22 sek. og bætti sig um þrjár mínútur. Þetta er í fimmta sinn sem hún hleypur maraþon.
Tími Önnu Berglindar á sunnudag er nýtt Íslandsmet í flokki 45-49 ára. Þar með á hún Íslandsmet í öllum götuhlaupum í aldursflokknum: 5 km, 10 km, hálfu maraþoni og heilu maraþoni.
Elma Eysteinsdóttir hljóp einnig maraþon í Barcelona á sunnudaginn og náði 15. besta tíma íslenskrar konu; hljóp á 3:07,23 klst. Þetta var í annað skipti sem Elma hleypur maraþon, hið fyrra var árið 2014 og tíminn nú 31 mínútu betri en þá.
Maraþonhlaup er 42,195 kílómetrar.
Martha Ernstsdóttir á Íslandsmetið, sett í Berlín árið 1999. Það er lang besti tími íslenskrar konu hingað til. Bestu tímar íslenskra kvenna eru þessir:
- 2:35,15 – Martha Erntsdóttir ÍR, 1999 í Berlín
- 2:42,15 – Andrea Kolbeinsdóttir ÍR, 2023 í Reykjavík
- 2:44,48 – Elín Edda Sigurðardóttir ÍR, 2019 í Frankfurt
- 2:53,22 – Helen Ólafsdóttir ÍR, 2013 í Berlín
- 2:53,22 – Anna Berglind Pálmadóttir UFA, 2025 í Barcelona
- 2:53,37 – Rannveig Oddsdóttir UFA, 2012 í Berlín
- 2:53,50 – Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir UFA, 2021 í Berlín