Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Setti Íslandsmet í 3000 m hlaupi – hver er hann?

Baldvin Þór Magnússon, Ungmennafélagi Akureyrar, setti um helgina Íslandsmet í 3.000 metra hlaupi innanhúss, á lokamóti bandarísku háskólanna – NCAA – sem fram fór í Arkansas. Baldvin Þór hljóp á 7 mínútum og 53,72 sekúndum. Hann er fæddur 1999 og árangur hans er því einnig aldursflokkamet 20-22 ára.

Baldvin Þór, sem keppir fyrir Eastern Michigan-háskólann, þar sem hann stundar nám, varð sjöundi á mótinu og hljóp í annað skipti á skömmum tíma langt undir Íslandsmeti Hlyns Andréssonar frá 2019. Met Hlyns var 7:59,11 mín., en Baldvin fór vegalengdina á 7:53,92 mín. á móti í Michigan í febrúar. Hann fékk afrekið reyndar ekki skráð sem Íslandsmet því keppt var á 300 metra braut, en það var þó skráð sem besti árangur Íslendings frá upphafi. Innanhússmet í hlaupum þarf að setja á hefðbundinni 200 metra braut og keppt var við þær aðstæður á lokamóti NCAA um helgina.

Ekki er víst að Akureyringar kannist við hlauparann, enda hefur hann lengi búið í Englandi, þótt skráður sé í UFA hin seinni ár. Baldvin Þór fæddist á Akureyri, sonur hjónanna Katrínar Snædal Húnsdóttur og Magnúsar Þórs Magnússonar, en fjölskyldan flutti til Hull þegar Baldvin var fimm ára og þar hafa foreldrar hans búið síðan. Baldvin var á Íslandi mörg sumur, aðallega á Akureyri, og segist í Morgunblaðinu hafa eitthvað spilað fótbolta með Þór og Selfossi. Hann byrjaði ungur að stunda fótbolta eins og algengt er hóf að iðka frjálsíþróttir 12 ára.

Til að kynna hlauparann unga fyrir mörgum Akureyringum er án efa einfaldast að segja: Afi Baldvins Þórs var Magnús Jónatansson knattspyrnukappi. Magnús Þór, faðir Baldvins, og Jónatan Magnússon, þjálfari KA í handbolta, eru hálfbræður. Talandi um íþróttagen!

Segja má að sjaldan launi kálfur ofeldið! Baldvin segist í raun eiga Hlyni Andréssyni, fyrrverandi Íslandsmethafa, allt að þakka. „Hann var í háskólanum hérna í Michigan á undan mér, útskrifaðist vorið áður en ég kom, og það var hann sem benti þjálfara skólans á mig og kom því til leiðar að ég kæmist hingað,“ segir Baldvin Þór í viðtali við Víði Sigurðsson í Morgunblaðinu í morgun.

Baldvin segist í Morgunblaðinu ætla að einbeita sér að 5.000 metra hlaupi á utanhússtímabilinu sem hefst í næstu viku. „Þrjú þúsund metrarnir eru ekki utanhússgrein í Evrópu að neinu ráði, aðallega hérna í Bandaríkjunum, og eru ekki ólympíugrein. Utanhúss legg ég því aðaláherslu á 5.000 metrana og hef ekki hlaupið 3.000 metra utanhúss í tvö ár. Utanhúss hleyp ég líka 1.500 metra,“ sagði Baldvin í Morgunblaðinu.

  • Myndin að ofan: Magnús Jónatansson fyrirliði ÍBA-liðsins í knattspyrnu þegar það varð bikarmeistari 1969. Maggi var afi Baldvins Þórs.
  • Viðbót – Katrín, móðir Baldvins Þórs, er dóttir Húns Snædæl flugumferðarstjóra og Sólrúnar Sveinsdóttur hjúkrunarfræðings. Systir Húns, Gígja, er móðir Rannveigar Oddsdóttur, þess mikla hlaupagarps á Akureyri. Amma Rannveigar og Katrínar, móðir Húns og Gígju, Hólmfríður Magnúsdóttir, stundaði ekki íþróttir enda stóð íslenskt kvenfólk ekki í slíku í neinum mæli á fyrri hluta síðustu aldar. Sagan segir hins vegar að föður Fríðu hafi þótt betra að hafa hana með sér í smölun en hundinn! Hún hafi verið svo létt á fæti. Hlaupagen Baldvins Þór er því hugsanlega hægt að rekja töluvert langt aftur!

Smelltu hér til að sjá 3000 metra hlaupið. Baldvin Þór er sá eini sem klæðist grænum bol og gulum buxum.

Baldvin Þór Magnússon með All-American gripinn eftir hlaupið um helgina; hann hljóta þeir sem komast í hóp átta bestu í hverri grein hjá íþróttasambandi bandarísku háskólanna. Til hægri er þjálfarinn Mark Rinker.