Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Baldvin Þór 16. á EM í víðavangshlaupum

Baldvin Þór á EM í Brussel í gær. Mynd af vef Frjálsíþróttasambands Íslands.

Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í 16. sæti á Evrópumeistaramótinu í víðavangshlaupum sem fram fór í Brussel í  Belgíu í gær. Alls skiluðu 82 keppendur sér í mark.

Keppendur hlupu sex hringi á brautinni í Brussel, samtals 9 kílómetra. Baldvin Þór fór vegalengdina á 30:48 mín. og kom í mark 31 sekúndu á eftir sigurvegaranum, Yann Schrub frá Frakklandi, sem fékk tímann 30:17 mín. Þess má geta að Henrik Ingebrigsten frá Noregi varð í 12. sæti sæti á 30:46 mín., tveimur sekúndum á undan Baldvin.

Þetta er langbesti árangur Íslendings á þessu feykisterka móti að því er fram kemur á vef Frjálsíþróttasambands Íslands. Þar segir einnig að brautin hafi verið full af leðju og torfærum.

„Já, ég er mjög glaður með þetta, miklu betra en NM. Geggjað að sýna formið sem ég er í og keppa á móti bestu hlaupurum í Evrópu. Leið vel í hlaupinu, mjög erfitt og mikil drulla,“ er haft eftir Baldvin Þór  á vef Frjálsíþróttasambandsins.

Baldvin keppti á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum 5. nóvember. Hann var svekktur eftir hlaupið þá, kvaðst staðráðinn í því að sýna sitt rétta andlit á stóra sviðinu og tókst svo sannarlega.

Vakin er athygli á því að Baldvin var á undan öllum þeim keppendum sem unnu hann á NM hérlendis í byrjun nóvember. Segja má að Baldvin  hafi áttt auðveldara með að finna taktinn í belgísku leðjunni en á hálffrosinni jörð í Reykjavík

Baldvin Þór er Íslandsmethafi í nokkrum vegalengdum: 1.500m, mílu, 3.000m, 5.000m, 10.000m og 10km götuhlaupi. Hann stefnir ótrauður á Ólympíuleikana í París næsta sumar.

Smellið hér til að sjá úrslit í karlaflokki á mótinu í gær.