Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Baldvin hleypur 1500 m á Meistaramóti Íslands

Baldvin Þór Magnússon, Íslandsmethafi í 1.500 metra hlaupi, verður á meðal keppenda á Meistaramóti Íslands (MÍ) í frjálsíþróttum sem fram fer á Þórsvellinum á Akureyri um næstu helgi. MÍ verður fyrsta keppni hans á braut hérlendis.

Baldvin Þór flutti ungur með foreldrum sínum til Englands en fjölskyldan hefur komið reglulega heim til Akureyrar alla tíð því þar eru margir ættingjar.

Akureyringurinn setti þrjú Íslandsmet í vetur, á háskólamótum í Bandaríkjunum, meðal annars bætti hann met Jóns Diðrikssonar í 1.500 metra hlaupi þegar hann fór vegalengdina á 3:40,74 mín. Met Jóns hafði staðið í hvorki meira né minna en 39 ár – síðan 1982. Jón hljóp á sínum tíma á 3:41,65 mín.

„Ég er mjög spenntur og hlakka mikið til að koma til Akureyrar. Ég hef alltaf farið þangað einu sinni eða tvisvar á ári en nú eru orðin tvö ár síðan síðast,“ sagði Baldvin Þór þegar Akureyri.net náði sambandi við hann í kvöld, þar sem hann beið eftir innanlandsflugi í Bandaríkjunum. Hann kemur til Íslands í fyrramálið.

„Ég hef aldrei keppt á braut á Íslandi en hef tekið þátt í nokkrum götuhlaupum og nokkrum utanvegahlaupum,“ sagði Baldvin, sem keppir í nafni Ungmennafélags Akureyrar á MÍ. Hann skráði sig í félagið fyrir nokkrum árum og keppir nú fyrir hönd þess í fyrsta skipti.

Ástæða þess að Baldvin Þór getur tekið þátt í Meistaramóti Íslands er sú að hann komst ekki inn á lokamót bandarísku háskólanna. Var töluvert frá sínu besta á svæðismótinu þar sem keppt var um sæti á lokamótinu „Ég hljóp 5.000 metra, hef sennilega æft of mikið fyrir mótið því ég varð mjög þreyttur. Keppt var í Flórída þar sem var mjög heitt og ég gerði bara upp á bak!“ segir hann og dregur ekkert undan.

Þau vonbrigði Baldvins Þórs urðu til þess að Akureyringar geta séð hann hlaupa; 1.500 metra hlaupið fer fram á laugardaginn og hefst klukkan 14.25. Ástæða er til að hvetja fólk til þess að fjölmenna á völlinn og styðja sinn mann!

Smellið hér til að lesa nánar um Baldvin Þór.