Málið gegn Aroni endanlega fellt niður
Ríkissaksóknari hefur staðfest niðurfellingu Héraðssaksóknara á kynferðisbrotamáli sem höfðað var gegn knattspyrnumönnunum Aroni Einari Gunnarssyni og Eggerti Gunnþóri Jónssyni. Fréttablaðið greinir frá þessu á vef sínum í dag og staðfestir lögmaður Arons Einars niðurstöðuna í samtali við blaðið.
Á síðasta ári lagði kona fram kæru gegn þeim vegna kynferðisbrots eftir landsleik í Kaupmannahöfn árið 2010. Aron Einar, fyrirliði landsliðsins til fjölda ára, hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu en ekki verið valinn til þess að leika fyrir Íslands hönd síðan málið kom upp.
„Sem fyrirliði hef ég fyrir löngu lært að axla ábyrgð og það sem nú viðgengst er slaufunarmenning eða útilokunarmenning og hana ætti ekki að líða. Um leið og ég hafna öllu ofbeldi þá lýsi ég því yfir að ég hef aldrei gerst brotlegur gagnvart neinum eða neinni. Ég ætla mér ekki að vera meðvirkur gagnvart dómstól götunnar varðandi atvik sem á að hafa átt sér stað fyrir ellefu árum síðan. Hafi einhver eitthvað út á mig að setja þá bið ég viðkomandi vinsamlegast að hlífa mér ekki, ásaka mig frekar og nafngreina og gefa mér kost á að verja mig. Það er heiðarlegt,“ sagði hann meðal annars í yfirlýsingu á sínum tíma.
Smellið hér til að lesa fréttina á vef Fréttablaðsins.
Smellið hér til að lesa yfirlýsingu Arons Einars á síðasta ári.