Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Birkir til Vals – Aroni bætt í landsliðshópinn?

Birkir Heimisson og Aron Einar Gunnarsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson og Þórir Ó. Tryggvason
Þórsarinn Birkir Heimisson, sem lék með uppeldisfélaginu í sumar, er genginn til liðs við Valsmenn á nýjan leik. Fótbolti.net greindi frá þessu í gær og kveðst hafa heimildir fyrir því að Valur kaupi leikmanninn á svipuðu verði og Þór greiddi Reykjavíkurfélaginu fyrir hann síðasta vetur.
 

„Það er geggjað að vera búinn að skrifa aftur undir hjá Val eftir lærdómsríkt ár fyrir norðan. Ég er búinn að vera að æfa með strákunum hérna í sumar og ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar Túfa [Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals ] vildi fá mig. Ég þekki hann vel og veit fyrir hvað hann stendur og hvað hann vill gera með hópinn. Það er gott að vera kominn aftur,“ segir Birkir við fótbolta.net.

Birkir er 24 ára. Hann fór 16 ára frá Þór til Heerenveen í Hollandi, samdi við Val eftir fjögur ár ytra og kom til Þórs á ný síðasta vetur.

Aron valinn?

Åge Hareide, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, tilkynnti í gær leikmannahópinn sem hann valdi fyrir leiki við Wales og Tyrkland í næstu viku í Þjóðadeildinni. Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins til fjölda ára, var ekki valinn en Hareide sagði hann hafa komið til greina að þessu sinni og ekki væri útilokað að honum yrði bætt við hópinn.
 

Fyrir um það bil mánuði lýsti Hareide því yfir að Aron yrði ekki valinn í landsliðið á meðan hann væri leikmaður Þórs í Lengjudeildinni. Hann yrði að spila í sterkari deild. Aron samdi við Al-Gharafa í Katar í síðustu viku, tók þátt í fyrsta leiknum á þriðjudagskvöldið þegar félagið sigraði Al-Ain frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum í Meistaradeild Asíu en fór af velli eftir um það bil 75 mínútur. „Við vit­um ekki hvort hann sé meidd­ur. Hann varð þreytt­ur aft­an í læri og fór af velli í leikn­um. Hann fer í mynda­töku og þá kem­ur það í ljós. Hann þarf að spila leiki til þess að koma sér aft­ur í sitt besta lík­am­lega form,“ hefur mbl.is eftir norska þjálf­ar­anum.

Hvað sem öðru líður má gera ráð fyrir því að Aron Einar hafi bætt sig mjög sem leikmaður þá viku sem liðin er síðan hann samdi við Al-Gharafa ...