Fara í efni
Arctic Therapeutics - Hákon Hákonarson

Rauði krossinn: Aldrei fleiri sjálfboðaliðar

Sjálfboðaliðar hafa aldrei verið fleiri en nú í verkefnum á vegum Rauða krossins við Eyjafjörð. Þetta kemur fram í ársskýrslu deildarinnar fyrir árið 2023 sem sem birt var á aðalfundi í síðustu viku.

„Staða deildarinnar er sterk og aldrei hafa starfað fleiri sjálfboðaliðar í verkefnum deildarinnar en þeir voru 354 talsins. Það er afar ánægjulegt að fylgjast með sjálfboðaliðum fjölga í starfinu okkar því sjálfboðin þjónusta er eitt af grunngildum Rauða krossins. Í þeirri viðleitni að virkja fólk til að vera hreyfiafl jákvæðra breytinga í samfélagi sínu erum við stolt af því að geta boðið upp á svo fjölbreytt verkefni að flest ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir í tilkynningu frá Eyjafjarðardeild Rauða krossins.

Karen Malmquist var þakkað fyrir samstarf á vettvangi stjórnar
„Ein af þeim sjálfboðaliðum sem starfað hafa með Rauða krossinum við Eyjafjörð til langs tíma er Karen Malmquist. Hún hefur starfað bæði í neyðarvörnum, heimsóknarvinum og fataverkefnum ásamt því að gegna trúnaðarstörfum fyrir deildina. Síðastliðin átta ár hefur Karen setið í stjórn deildarinnar en það er hámarks tímalengd stjórnarsetu almenns stjórnarmanns. Á aðalfundinum kvaddi stjórn deildarinnar Karen og þakkaði henni samstarfið á vettvangi stjórnar. Karen er afar öflugur sjálfboðaliði sem er ávallt tilbúin til rétta hjálparhönd og taka að sér fjölbreytt verkefni innan starfsins,“ segir í tilkynningunni.
 
Þar segir ennfremur:
 
  • Rauði krossinn á Íslandi er félag fólks sem vill bæta samfélag sitt. Ef þú vilt vera þátttakandi í því hvetjum við þig til að hafa samband við okkur og skoða þau verkefni sem í boði eru.
  • Það má með dálítilli einföldun skipta verkefnum niður í þrjá flokka; neyðarvarnir, félagslegan stuðning og fataverkefni. Rúmlega 150 sjálfboðaliðar starfa við félagslegan stuðning, til dæmis í heimsóknavinum, stuðningi við flóttafólk, hjálparsímanum 1717 og Frú Ragnheiði en tæplega 100 í hvoru fyrir sig, neyðarvörnum og fataverkefni.
  • Við leggjum áherslu á að þjálfa okkar sjálfboðaliða vel og veita góðan stuðning í öllu starfi á vegum Rauða krossins. Við bjóðum sjálfboðaliðunum okkar upp á ýmiskonar fræðslu og þjálfun, meðal annars í skyndihjálp og sálrænum stuðningi en stundum líka bara upp á viðburði til þess einfaldlega að njóta samverunnar.