Lyfin fimm sem Hákon og hans fólk þróar
Akureyringurinn Hákon Hákonarson, læknir í Bandaríkjunum, stefnir að því að koma á fót umfangsmikilli lyfjaþróun og framleiðslu á Akureyri á næstu misserum, eins og fram kom á Akureyri.net fyrir skömmu. Fyrirtæki hans vinnur nú að þróun fimm lyfja.
Hákon stofnaði fyrir nokkrum árum fyrirtækið Arctic Therapeutics á Akureyri. Þar eru nú fáeinir starfsmenn við rannsóknir en hann stefnir að því að byggja upp 100 manna lyfjaþróunaratvinnuveg á Akureyri.
Hákon, sem er sérfræðingur í lungna- og genarannsóknum á barnaháskólasjúkrahúsinu í Fíladelfíu, sem hann segir annan tveggja bestu barnaspítala heims ásamt þeim í Boston.
Fyrsta lyfið sem Hákon og hans fólk þróar, og Akureyri.net fjallaði um nýlega, er við arfgengri íslenskri heilablæðingu, sem er þekkt í nokkrum fjölskyldum.
Hin fjögur eru þessi:
- Lyf við augnbólgusjúkdómum. „Hægt er að nota það lyf fyrir margt annað, en við leggjum núna áherslu á bólgur í lithimnu í auga,“ segir Hákon við Akureyri.net. „Við höfum verið að gera rannsóknir á ákveðnu hestakyni í Ameríku en um 10% hrossanna verða blind vegna sjálfsofnæmissjúkdóms; þau fara að ganga á girðingar og utan í veggi en með því að gefa þeim augndropa eða smyrsl í tvær vikur eru hrossin fara að hlaupa aftur úti í haga.“
Hákon segir augnbólgusjúkdóm býsna algengan í fólki um allt land. „Við myndum byrja lyfjaprófanir fyrir norðan en í Reykjavík í framhaldinu.“
- „Við erum að þróa krem sem virkar mjög vel á bólur, til dæmis unglingabólur. Bólur eru oft vandamál hjá unglingum, engin meðferð hefur verið til við þeim, en þetta krem virkar mjög vel á þær. Bólurnar hverfa á fáeinum dögum við meðferð,“ segir Hákon. Hann nefnir að það virki líka á ýmis exem, sóríasis (psoriasis) og rósroða.
Hákon segir Erni heitin Snorrason, geðlækni, fyrstan hafa áttað sig á að ákveðið lyf sem notað sé við Alzheimer-sjúkdómnum, virki líka á húðsjúkdóma. Hann hafi lengi unnið með Erni að þessu verkefni. Kremið fer í klíníska rannsókn á þessu ár. Gert sé fyrir að rannsóknin taki eitt ár hér á landi, en síðan á að endurtaka hana í Bandaríkjunum.
- „Svo erum við svo með astmalyf sem er mjög sérhæft og á að nýtast fólki sem hefur þurft að leggjast inn á spítala, jafnvel á gjörgæslu. Það hefur erfðabreytileika í geni sem auðveldar veirunni að koma astmakasti af stað. Þessi sama veira er algengasta orsökin fyrir því að fólk fær kvef og lyfið gæti hugsanlega einnig komið til með að virka á kvef almennt. Það gæti orðið stórt!“
- Fimmta lyfið er við Rauðum úlfum, liðagigt, þarmabólgum og sóriasis. Hákon segir mögulegt að það gæti líka nýst við MS sjúkdómnum þótt ekki vilji hann fullyrða of mikið, en spennandi væri að rannsaka málið frekar hér á landi; í stórum fjölskyldum með hliðstæðan erfðalegan bakgrunn þar sem sumir glími við MS, aðrir liðagigt eða Rauða úlfa.
Smellið hér til að lesa fyrri frétt um Hákon: Stefnir að 100 störfum við lyfjaþróun