Fara í efni
Amtsbókasafnið

Jafnvel Egill sterki drekkur Thule!

Of-áfengu Thule léttöli hellt niður árið 1973. Lögreglumennirnir Ófeigur Baldursson, til vinstri, og Einar Einarsson.

SÖFNIN OKKAR – XVII
Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Sala á sterkum bjór var bönnuð hérlendis frá 1. janúar 1915 til 1. mars 1989. Í staðinn var bruggaður minna áfengur bjór undir vökulum augum hins opinbera. Slíkur mjöður skyldi ekki vera umfram 2,25% prómil með örlitlum skekkjumörkum.

Í verksmiðju Sana á Akureyri var slíkur mjöður framleiddur frá 1966 undir heitinu Thule lageröl og seldist vel þó samkeppnin væri hörð við Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Eftirlit samkeppnisaðilans var greinilega öflugra en hins opinbera því árið 1973 kom í ljós að áfengismagn í einni lögun Thule lageröls var vel umfram það sem var leyfilegt. Það þurfti því að innkalla alla framleiðsluna og hella niður undir eftirliti lögreglu og tollvarða.

Áður en hægt var að innkalla birgðirnar sáu Sana menn sér leik á borði og skákuðu samkeppnisaðilanum með sjónvarpsauglýsingu þar sem leikarinn Pétur Einarsson var klæddur í víkingabúning með ógurlega mikið skegg drakk af ákefð Thule lageröl uns hann rumdi upp slagorðinu „Jafnvel Egill sterki drekkur Thule!“

Sjónvarpsáhorfendur þurftu ekki að lesa mikið milli línanna til að ráða í dulmálið. Thule lageröl flöskurnar hurfu hratt úr hillunum. Það var því minna hellt niður af áfenga lagerölinu en til stóð. Raunar var auglýsingaherferðin svo vel heppnuð að Ölgerðin gerði auglýsingastofunni Argus tilboð sem ekki var hægt að hafna um að gera aðeins auglýsingar fyrir Ölgerðina en ekki neinar fyrir Sana.

Herbert Jónsson yfirtollvörður og Gísli Ólafsson yfirlögregluþjónn fylgdust grannt með þegar ölinu var hellt niður.

Sana framleiddi m.a. goðsagnakenndu gosdrykkina Valash, Jolly Cola, Cream Soda og Mix.

Í viðtali við Frjálsa verzlun árið 1974 sagði Magnús Þórisson framkvæmdastjóri Sana h.f. að Thule lagerölið væri vinsælast af öllum framleiðsluvörum Sana enda væri vel vandað til framleiðslu á slíkum mjöð sem væri mjög viðkvæmur og „hefur mörgum reynst erfitt að framleiða gott öl með litlum styrkleika. – þetta hefur þó tekist mjög vel með Thule lageröl, eins og eftirspurn sýnir…“ Þessi auglýsing frá Sana birtist í Akureyrarblaði Morgunblaðsins 3. apríl 1977.

Úr framleiðslusal Sana-verksmiðjunnar.