Fara í efni
Amtsbókasafnið

Hvert verður erindi safna í framtíðinni?

Safnafólk víðs vegar að í Flugsafni Íslands á Akureyri í vikunni.

Starfsfólk safna vítt og breytt um landið hefur fyllt samkomusali á Akureyri í vikunni, fundað og hlýtt á erindi í 36. farskóla FÍSÓS sem nú stendur yfir; farskólinn er árleg ráðstefna fagfólks á íslenskum söfnum.

Skólinn er vettvangur safnafólks til endurmenntunar og umræðu um nýjustu strauma í safnaheiminum. Í þetta sinn er hann fjölmennari en nokkru sinni en 158 þátttakendur úr menningarminja- náttúru- og listasöfnum eru skráðir í skólann og komust færri að en vildu.

Yfirskrift skólans er Umbreyting í safnastarfi – Hvert er erindi safna í framtíðinni? Að sögn Haraldar Þórs Egilssonar, safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri, hefur umhverfi safna tekið miklum breytingum á flest allan hátt síðustu ár. Starfsfólkið tekst á við nýjan veruleika í tækni og einnig þurfa söfnin að finna leiðir til að þjóna síbreytilegu samfélagi.

Í ljósi þessa spyr safnafólk sig skiljanlega ýmissa spurninga. Meðal annars:

  • Hvernig á að nálgast nýjan veruleika í miðlun, fræðslu og söfnun í framtíðinni?
  • Hvað verður um stafrænu ljósmyndirnar í símanum ?
  • Er gervigreind eitthvað sem starfsfólk safna getur nýtt í fjölbreyttum störfum sínum?

Á dagskrá farskólans eru 17 erindi og 19 vinnustofur, Markmiðið er að þátttakendur hafi bæði gagn og gaman af öllu saman, og ekki síður að þeir sem nýta sér þjónustu safna njóti góðs af til framtíðar.

Farskólinn hófst á miðvikudaginn og honum lýkur í dag.