Fara í efni
Amtsbókasafnið

Íbúar ósáttir: Andstætt stefnu stjórnvalda – Landsnet segir ósatt – Eignir lækka í verði

Hópur íbúa í Giljahverfi fer fram á að engar breytingar verði gerðar á aðalskipulagi Akureyrarbæjar nema tryggt sé að nýjar loftlínur verði ekki reistar í þéttbýli.

Þetta kemur fram í athugasemdum íbúanna við fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi vegna háspennulínunnar, Blöndulínu 3, sem lögð verður ofan byggðar, frá bæjarmörkum í norðri að Rangárvöllum. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út í dag.

Landsnet óskaði eftir því að breyting yrði gerð á aðalskipulaginu og meðal þess sem íbúarnir gera alvarlegar athugasemdir við er að fulltrúi Landsnets hafi farið með rangt mál á kynningarfundi nýlega. Þar hafi viðkomandi sagt lagningu Blöndulínu 3 í þéttbýli á Akureyri tæknilega ómögulega en síðar á fundinum hafi komið í ljós að sú fullyrðing væri röng.

Það voru hjónin Ágúst Torfi Hauksson og Eva Hlín Dereksdóttir sem höfðu forgöngu um að taka saman athugasemdir sem kynntar voru á Facebook síðu hverfisins og stór hluti fasteignaeigenda í hverfinu höfðu skrifað undir þær í gærkvöldi, að sögn Ágústs Torfa.

Athugasemdirnar eru í fjórum liðum, í stuttu máli þessar:

  • Farið er á svig við stefnu stjórnvalda um lagningu jarðstrengja innan þéttbýlismarka 
  • Fulltrúi Landsnets fór með rangt mál með því að segja lagningu Blöndulínu 3 í þéttbýli á Akureyri tæknilega ómögulega. 
  • Áhrif á verðgildi fasteigna – „Í þessari skipulagsbreytingu á að leggja háspennulínu í þéttbýli sem fyrir er og þar með verðfella allar eignir. Nær allt Giljahverfi og stærstur hluti fyrirhugaðs Móahverfis er innan 1000m frá fyrirhuguðu línustæði Blöndulínu 3.“
  • Framtíðar notkun Græna trefilsins – „Lagning 220 kV loftlínu í stað jarðstrengs skerðir mjög framtíðar nýtingarmöguleika svæðisins vestan Gilja- og Móahverfis sem útivistarsvæðis og frekari uppbyggingar íbúða- eða frístundahúsnæðis á svæðinu þar sem áhrifasvæði jarðstrengs er mun minna en loftlínu.“
  • Mótmælt er niðurfellingu á iðnaðarsvæði fyrir tengivirki og helgunarsvæði í landi Kífsár. Í gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir loftlínu og leið fyrir jarðstreng að Rangárvöllum en með breytingu verði ekki möguleiki á þeirri lagnaleið.

Hér má sjá athugasemdirnar í heild – feitletrarnir eru Akureyri.net:

  1. Farið er á svig við stefnu stjórnvalda um lagningu jarðstrengja innan þéttbýlismarka. 2014-2015 var mótuð stefna stjórnvalda um lagningu raflína, samþykkt á Alþingi 28.maí 2015 (https://www.althingi.is/altext/144/s/1355.html). Þar er skýrt tekið fram að ákvæði um umframkostnað vegna jarðstrengs eigi ekki við þegar um sé að ræða línulagnir í þéttbýli.

    Í athugasemdum ráðherra með frumvarpinu er eftirfarandi sérstaklega tekið fram í lið 5: „Ein af megináherslum þeirrar stefnu sem hér er lögð fram er að setja raflínur í jörðu þar sem það er fjárhagslega hagkvæmast og í þéttbýli og á svæðum sem friðlýst eru vegna sérstaks landslags.“

    Árið 2018 var gerð önnur þingsályktun um uppbyggingu flutningskerfis raforku (https://www.althingi.is/altext/148/s/1244.html) þar er í greinargerð ráðherra áréttuð fyrri stefna varðandi raflínur í þéttbýli: „Eins og rakið er í greinargerð með tillögu til þingsályktunar nr. 11/144 mun sú stefna um uppbyggingu flutningskerfis raforku sem er sett fram í þingsályktunartillögu þessari leiða til þess að hlutfall jarðstrengja í flutningskerfi raforku muni aukast jafnt og þétt á næstu árum. Lengd loftlína mun því minnka og verða þær því minna sýnilegar í íslenskri náttúru, auk þess sem þær verða að mestu fjarri friðlýstum svæðum og munu ekki liggja inn í þéttbýlisstaði.“

    Í umsögn Akureyrarbæjar um þingsályktunina frá 2014 segir m.a.: „…telur að þar þurfi að skerpa verulega á ákvæðum í tillögunni og leggur til fortakslaust ákvæði þess efnis að ekki verði lagðar loftlínur í og við þéttbýli…“ og „Akureyri er þéttbýlasti byggðakjarni landsins sem meginflutningskerfið fer um og telur Akureyrarbær sérlega mikilvægt að áhersla sé lögð á kosti jarðstrengja innan og í nágrenni við skilgreind þéttbýlismörk sveitarfélaga“.

    Sú Aðalskipulagstillaga sem hér er fjallað um fer þvert á stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku þar sem skýrt er kveðið á um að raflínur skulu vera í jörð í þéttbýli óháð kostnaði við slíka framkvæmd. Hún fer einnig í berhögg við umsögn og vilja Akureyrarbæjar eins og hann kom fram í umsögn þeirri sem vísað er í að ofan.

    Á kynningarfundi um Aðalskipulagsbreytinguna sem haldinn var í Giljaskóla 10. apríl 2024 fór fulltrúi Landsnets með rangt mál í framsögu og sagði lagningu Blöndulínu 3 í þéttbýli á Akureyri tæknilega ómögulega. Síðar á fundinum kom í ljós að þessi fullyrðing var röng og kom fram frá öðrum aðila frá Landsneti að lagningin væri vissulega tæknilega möguleg en Landnet vildi frekar gera annað, þ.e. nýta mögulega rýmd í kerfinu til að setja aðrar og spennuminni lagnir í jörð. Við gerum alvarlegar athugasemdir við framsetningu sem þessa og förum fram á að farið sé að stefnu stjórnvalda og eftir gildandi Aðalskipulagi Akureyrar og lögnin sett í jörð.

    Ljóst er að bæði sjón- og hljóðmengun af 220kV lögn er af allt annarri stærðargráðu heldur en línum á lægri spennustigum sem ekki liggja um þéttbýli. Skilningi Landsnets á skyldum sínum virðist vera nokkuð ábótavant hvað þetta varðar sé miðað við þá beiðni um breytingu á Aðalskipulagi sem fyrir liggur.

  2. Áhrif á verðgildi fasteigna. Við útreikning fasteignamats er tekið tillit að ýmissa þátt vaðandi viðkomandi fasteign og er vægi þeirra þátta sett fram í Fasteignamatsskýrslu (https://fasteignaskra.is/fasteignir/fasteignamat/2024/) Húsnæðis og mannvirkjastofnunar (HMS) ár hvert. Þar kemur fram að við gerð fasteignamats sumarhúsa er tekið tillit fjarlægðar sumarhúss frá háspennulínum sem eru yfir 132 kV og er staðsetning innan við 1000m frá línu metin til lækkunar, mismikil eftir fjarlægð. Samkvæmt HMS er ástæða þess að ekki er sambærilegur stuðull í mati á íbúðarhúsnæði með fastri búsetu sú að ekki er gert ráð fyrir að línur á þessu spennustigi séu innan við 1000m frá slíku húsnæði. Ef vildi svo illa til að íbúðarhúsnæði væri staðsett innan við 1000m frá +132 kV línu væri eðlilegt að sambærilegur stuðull væri í mati en hann þó þannig að verðfall væri meira enda um fasta búsetu að ræða. Í samtali við sérfræðing hjá HMS kom fram að það sæist greinilega á kaupsamningum fasteigna að verð per fm lækkaði markvert eftir nálægð við háspennulínur. Í Hafnarfirði voru háspennulínur fyrir og hefur byggð smám saman færst nær þeim á undanförnum áratugum. Í þessari skipulagsbreytingu á að leggja háspennulínu í þéttbýli sem fyrir er og þar með verðfella allar eignir. Nær allt Giljahverfi og stærstur hluti fyrirhugaðs Móahverfis er innan 1000m frá fyrirhuguðu línustæði Blöndulínu 3, sjá mynd: Ef miðað er við reiknireglu HMS vegna sumarhúsa er verðfall vegna nálægðar við +132 kV línu 14% í 250m fjarlægð, 10% í 500m fjarlægð og 5% í 750m fjarlægð. Það má því ætla að lækkun á fasteignamati í Giljahverfi væri mjög veruleg auk þess sem fasteignamat í nýju Móahverfi væri undir væntingum. Eðlilegt væri að skoða í þessu sambandi vænt tekjutap Akureyrarbæjar og kostnað við að bæta fasteignaeigendum þá eignaupptöku sem myndi felast í línulögninni þegar kostir varðandi framkvæmdina eru metnir. Rétt er að taka fram að tölur að ofan miðast við stuðul sumarhúsa, stuðull vegna íbúðarhúsa myndi valda meiri lækkun fasteignamats og þannig meiri áhrifum. Allt hesthúsahverfið er jafnframt innan við 500m frá fyrirhuguðu línustæði. Undirritaðir fasteignaeigendur í Giljahverfi gera alvarlegar athugasemdir við tillöguna á grundvelli rýrnunar eigna þeirra auk áhrifa á fjárhag Akureyrarbæjar vegna tekjutaps og fyrirsjáanlegra bótakrafna.

  3. Framtíðar notkun Græna trefilsins vestan Gilja- og Móahverfis. Lagning 220 kV loftlínu í stað jarðstrengs skerðir mjög framtíðar nýtingarmöguleika svæðisins vestan Gilja- og Móahverfis sem útivistarsvæðis og frekari uppbyggingar íbúða- eða frístundahúsnæðis á svæðinu þar sem áhrifasvæði jarðstrengs er mun minna en loftlínu. Undirritaðir gera athugasemdir við ráðstöfun framtíðar útvistarsvæðis undir helgunarsvæði 220 kV loftlínu.

  4. Niðurfelling á iðnaðarsvæði I16 fyrir tengivirki í landi Kífsár og helgunarsvæði því tengd. Í gildandi Aðalskipulagi er gert ráð fyrir loftlínu að I16 og leið fyrir jarðstreng að Rangárvöllum. Sú leið samrýmist stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku um þéttbýli og mótmæla undirritaðir því að svæðið og helgunarsvæði lagna að því sé fellt niður og þar með möguleikar á þeirri lagnaleið fyrir Blöndulínu 3.

    Akureyri hefur nokkra sérstöðu hvað varðar flutningskerfi raforku. Akureyri er eina þéttbýlið á leið 132 kV byggðalínuhrings frá Sigöldu til Hvalfjarðar og einnig eina þéttbýlið á leið nýrrar 220 kV tengingar frá Fljótsdalsvirkjun til Hvalfjarðar. Þegar horft er til þessa og stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku er vandséð annað en að jarðstrengir innan þéttbýlismarka Akureyrar séu forgangsmál. Undirritaðir leggjá áherslu á að frá sjálfsögðum kröfum Akureyrarbæjar sem settar voru fram í fyrrgreindu áliti frá 2014 verði ekki hvikað og engar breytingar gerðar á Aðalskipulagi nema tryggt sé að engar nýjar loftlínur verði reistar við þéttbýli.