Amtsbókasafnið
Þórhallur vill meira á Tjaldsvæðisreitnum
21.01.2025 kl. 06:00
Hluti Tjaldsvæðisreitsins. Horft til suðurs, gamli Húsmæðraskólinn til vinstri og Krambúðin að Byggðavegi 98 til hægri. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Þórhallur Jónsson (Sjálfstæðisflokki) telur að nýting Tjaldsvæðisreitsins eins og gert er ráð fyrir í þeim áformum sem nú eru í vinnslu sé ekki nægileg, fjölga ætti íbúðum um 60 og hækka húsin í suðausturhorni reitsins, þar sem skuggavarp af þeim byggingum hefði ekki áhrif á neina íbúa í nágrenninu.
Þetta kemur fram í bókun sem hann lagði fram á síðast fundi skipulagsráðs þegar fjallað var um drög að breyttu deiliskipulagi fyrir reitinn. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar í kjölfar samráðs við Norðurorku, lóðarhafa Byggðavegar 98 (þar sem Krambúðin er til húsa), ásamt velferðarsviði og umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkti hins vegar að fela skipulagsfulltrúa að kynna fyrirliggjandi drög að endurskoðuðu deiliskipulagi. Endurskoðun deiliskipulagsins kom meðal annars til vegna þess að áform um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í norðvesturhorni reitsins gengu ekki eftir.