Fara í efni
Amtsbókasafnið

Hringrásarjól gengin í garð á Amtsbókasafninu

Reynir Elías Einarsson og Aija Burdikova, starfsmenn Amtsbókasafnsins, í jólastofunni í dag. Rétt er að taka fram að Akureyri.net greip þau ekki glóðvolg í stólunum heldur settust þau þar að beiðni ljósmyndarans! Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hringrásarjól hófust á Amtsbókasafninu í dag og standa til 19. desember. Þau eru unnin í samvinnu við Landvernd og Fjölsmiðjuna og hugmyndin fengin að láni frá Norræna húsinu, segir á Facebook síðu safnsins.

„Í desembermánuði umlykur hinn sanni jólaandi sýningarrými safnsins,“ segir þar. „Búið er að breyta sýningarrými Amtsbókasafnsins í huggulega jólastofu þar sem gestir og gangandi geta haft það náðugt í hægindastólum og hlýjað sér við rafrænan arineld.“

Skiptihilla fengin að láni frá Fjölsmiðjunni er í stofunni, og þangað er öllum velkomið að koma með hluti sem þau eru hætt að nota „en vilja gefa framhaldslíf. Einnig er fólki velkomið að taka það sem gæti nýst þeim. Í hillunni má endilega koma með smádót ef ské kynni að jólasveinar ættu leið hjá. Á fataslá má koma með eða taka spariföt fyrir fólk á öllum aldri.“

Tekið er fram að umhverfisvæn innpökkunarstöð verði á sínum stað. „Þar er bæði hægt að pakka inn í gamlar blaðsíður og í gjafapappír sem dagað hefur upp í skápum fólks.“

Hringrásarjólin á Facebook