Fara í efni
Amtsbókasafnið

Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson

AF BÓKUM – 20
 

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Sigurður Helgi Árnason_ _ _

Gyrðir Elíasson hefur lengi verið minn uppáhalds íslenski rithöfundur. Hann er afskaplega fjölhæfur og hefur skrifað nokkuð jöfnum höndum skáldsögur, ljóð, smásögur og einnig smáprósa. Einnig hefur hann fengist mikið við þýðingar gegnum árin.

Bókin sem ég vil vekja athygli á heitir Suðurglugginn og kom út árið 2012. Ég las hana þegar hún kom út og fannst hún sérstök, á góðan hátt. Mörgum árum seinna þegar Storytel kom til sögunnar fann ég þennan gullmola þar og hef hlustað oftar á hana en nokkra aðra bók.

Suðurglugginn fjallar um rithöfund sem er líklega frekar þunglyndur og heldur til í húsi vinar síns á Snæfellsnesinu. Rauði þráðurinn gegnum söguna má segja að séu erfiðleikar hans við að skrifa skáldsöguna sem hann vinnur að. Sagan er í raun dagbók þessa mjög svo einangraða höfundar sem slitið hefur nánast öll tengsl við sitt fólk. Mamma hans hringir stundum í hann og veltir hann því fyrir sér hvers vegna hún sé að því: „Ég hringi aldrei í hana“, segir hann á einum stað. Inn í textann fléttast einnig fréttafyrirsagnir úr útvarpinu sem eru nánast hans einu tengsl við umheiminn. Draumar þessa vansæla höfundar koma einnig mikið við sögu og eru afskaplega skrýtnir oft.

Eitt af því sem Gyrðir gerir oft í bókum sínum er að skjóta inn umfjöllun um bækur og titlum bóka sem sögupersónur eru að lesa eða lásu sem börn og í Suðurglugganum kemur t.d. bókin Fástus eftir Thomas Mann við sögu. Þó bókin einkennist af einmannalegum og sorglegum undirtón tekst Gyrði samt að gera söguna mjög fyndna á köflum og í því sambandi vil ég nefna heimsóknir hans í litla bókabúð í næsta þorpi. Samskipti hans við konuna sem þar afgreiðir eru frekar brosleg. Annað sem mér finnst skemmtilegt við söguna er þrjóska þessa höfundar og hversu fast hann heldur í gamla tíma. Hann t.d. skrifar á gamla ritvél en ekki tölvu. Lýsingarnar á þeim erfiðleikum sem það er bundið að nota gamla ritvél finnast mér fyndnar og stafurinn „B“ kemur þar skemmtilega við sögu.

Mæli heilshugar með Suðurglugganum!