Fara í efni
Amtsbókasafnið

Ég leitaði einskis ... og fann, í bók Hrafnkels

AF BÓKUM – 10

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.

Í dag skrifar Sigurður Helgi Árnason_ _ _

Ég ákvað að mæla með ljóðabók því ég hef mikið yndi af lestri ljóða. Þessi tiltekna bók Hrafnkels Lárussonar, Ég leitaði einskis ... og fann kom út árið 2014 og ég las hana þá. Hún er enn í huga mér því mér fannst ljóðin og knappur stíllinn skemmtilegur. Þarna er t.d. að finna ljóðið „Bókmenntasaga - niðursoðið yfirlit“, sem er sennilega ein aðalástæða þess að bókin hefur tollað í höfði mínu öll þessi ár. Höfundur leitar víða fanga, bæði í mannlífinu og, að því er virðist, sínu eigin sálarlífi. Í bókinni er m.a. ljóð um 11. september 2001. Á öðrum stað er frekar dapurlegt en samt fallegt ljóð um gamlan tíma þar sem ekki mátti sýna tilfinningar. Í því ljóði (bls. 27) birtist lítill strákur sem dreymir um annan veruleika en þann sem hann lifir í, og tjáir líka ást sína á móður sinni.

Bókin endar svo á litlum ljóðabálki sem nefnist Talað við samtímann 2009. Eins og gefur að skilja koma þar útrásarvíkingar og efnahagshrun mikið við sögu.

Ég mæli eindregið með þessari bók fyrir þau sem á annað borð unna ljóðum.

Ég læt fylgja hér í lokin ljóðið „Bókmenntasaga - niðursoðið yfirlit“, sem er á bls. 41.

Á Grandavegi búa Ísbjörg og Tómas Jónsson
Í garði konunnar sem kyndir ofninn glóir
grámosinn en riddarar hringstigans halda
sniglaveislu undir grjótvegg í hundrað
og einum Reykjavík
Höfundur Íslands og englar alheimsins skála
fyrir skammdeginu í draumalandinu meðan
landnemann dreymir jörð í fótsporum á
himnum
Tíminn eftir fortíðina er senn liðin