Amtsbókasafnið
Ævintýri Tinna: „Et nous voilà à Akureyri“
10.12.2024 kl. 10:00
AF BÓKUM – 4
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _
Ævintýri Tinna, Tinnabækurnar, er röð bóka um rannsóknarblaðamanninn Tinna og félaga hans. Höfundur bókanna er belgíski listamaðurinn Hergé, sem er dulnefni fyrir Georgés Remi (1907-1983). Fyrsta sagan kom út árið 1929 og hafa 23 af 24 eiginlegum Tinnabókum verið þýddar yfir á íslensku. Þýðingarnar komu út á árunum 1971-1977 og 2007. Svo skemmtilega vill til að fæðingarár undirritaðs er 1971.
Ástæða þess að ég valdi Tinnabækurnar er tvíþætt: þetta er tímalaus klassík sem ég les reglulega og svo minna þær mig mikið á pabba minn heitinn, en hann las þessar bækur fyrir og með okkur bræðrunum þegar við vorum ungir pollar.
Tinni var stundum talinn vera hetjan sem hinn ungi Hergé vildi verða og ekki er mikið um sjáanlega galla á þessum rannsóknarblaðamanni. Þeir koma helst fram í samferðamönnum hans og félögum, hinn skapstóri Kolbeinn kafteinn er gott dæmi. Blót hans kenndi mér margt og hrósa ég þýðingu Lofts Guðmundssonar fyrir þann aukna orðaforða. Kolbeinn hefði þurft að hitta ömmu Diddu, það hefði verið orðaforðaveisla aldarinnar!
Ástæða þess að ég valdi Tinnabækurnar er tvíþætt: þetta er tímalaus klassík sem ég les reglulega og svo minna þær mig mikið á pabba minn heitinn, en hann las þessar bækur fyrir og með okkur bræðrunum þegar við vorum ungir pollar.
Tinni var stundum talinn vera hetjan sem hinn ungi Hergé vildi verða og ekki er mikið um sjáanlega galla á þessum rannsóknarblaðamanni. Þeir koma helst fram í samferðamönnum hans og félögum, hinn skapstóri Kolbeinn kafteinn er gott dæmi. Blót hans kenndi mér margt og hrósa ég þýðingu Lofts Guðmundssonar fyrir þann aukna orðaforða. Kolbeinn hefði þurft að hitta ömmu Diddu, það hefði verið orðaforðaveisla aldarinnar!
Aðrir skemmtilegir einstaklingar í bókunum eru leynilögreglumennirnir Skapti og Skafti, prófessor Vilhjálmur Vandráður og síðast en ekki síst hinn tryggi hundur Tinna, Tobbi.
Tinnabækurnar litast margar af skoðunum höfundarins, en einnig af aðstæðum í heiminum. Þær eru skrifaðar á árunum 1929-1976 og 1986. Sú síðasta var gefin út ókláruð, þar sem Hergé lést 1983. Glöggir aðilar sjá að um sögulega tíma er að ræða og eitthvað segir mér að ef Tinni væri skrifaður í dag væri margt öðruvísi í bókunum! En þrátt fyrir sumt vafasamt í efnistökum einhverra bókanna, þá finnst mér þetta vera tímalaus klassík sem ég ætla að halda áfram að lesa.
Svo má minnast á að í fyrstu þýddu Tinnabókinni, Dularfullu stjörnunni, kemur Tinni til Íslands, nánar tiltekið til Akureyrar, þar sem formaður Bindindissamtaka sjómanna, Kolbeinn kafteinn, varð Bakkusi að bráð og má því segja að áhrifamáttur Akureyrar sé mikill!
Titill þessarar umfjöllunar er sóttur úr Dularfullu stjörnunni. Bein þýðing væri „Og hér erum við á Akureyri“ en Loftur þýddi: „Jæja, svo þetta er Akureyri?“ og Tinni bætir við: „Verður viðdvölin löng hérna?“ Brosandi Kolbeinn kafteinn svarar: „Ónei!“