Fara í efni
Alþingiskosningar 2021

Sjálfstæðisstefnan er byggðastefna

Grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins er að frumkvæði einstaklingsins skili sér í að hver og einn fái notið árangurs erfiðis síns samfara ábyrgð eigin athafna. Sú trú að kraftur og frumkvæði byggi upp þjóðfélagið. Við teljum að öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sé forsenda framfara og undirstaða velferðar. Stjórnvalda er að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulíf svo að nýta megi krafta einstaklingsins til fulls.

Eitt meginstef sjálfstæðisstefnunnar er að tryggja sem flestum í íslensku samfélagi jöfn tækifæri. Það er ekki krafa um jafna útkomu eða að allir séu steyptir í sama mót, heldur að skapa samfélag veitir tækifæri til þess að nýta hæfileika sína á hvern þann heilbrigða hátt, sem þeir kjósa.

Báknið dregur fjármagn suður og þróttinn úr landsbyggðinni

Byggðastefna er ekki ölmusustefna, heldur um sanngirni, jafnræði og sömu tækifæri. Íbúar dreifðari byggða skyldu njóta sömu tækifæra, sömu grunngerðar og sama stoðkerfis og þeir sem búa í margmenni höfuðborgarinnar.

Við sjálfstæðismenn viljum verjast auknum ríkisumsvifum, miðstýringu og sífelldri fjölgun opinberra starfsmanna. Báknið dregur fjármagn suður og þrótt úr landsbyggðinni. Þar vilja stjórnlyndir leyfa atvinnulífi fátt, banna margt og skipulagsbinda sem flest – flest skal vera háð leyfi einhverra hæggengra stofnana syðra. Vöxtur ríkisvaldsins skyldi skorðaður og fyrirtæki nytu ávaxta erfiðis síns í heimabyggð.

Stöðugleiki atvinnulífsins er byggðamál

Stöðugt rekstrarumhverfi fyrirtækja er annað gríðarlega mikilvægt byggðamál. Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu stöðugleika atvinnulífs. Einungis þannig blómstra fyrirtæki og skila því sem við vonumst til af þeim.

Þetta á ekki síst við um framleiðslugreinar landbúnaðar og sjávarútvegs, sem eru sterkar á landsbyggðinni. Sjávar- og eldisafurðir eru þriðjungur útflutningstekna þjóðarbúsins. Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina. Það er mikilvægt byggðamál að gjaldheimta í sjávarútvegi sem daglega keppir við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg, dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni.

Annað dæmi: Samkvæmt Byggðastofnun má rekja um 81 prósent atvinnutekna í fiskeldi til tekna á landsbyggðinni. Þessi drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu er mikill á Vestfjörðum og Austfjörðum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett fram þá sanngjörnu kröfu að skoðað verði með hvaða hætti megi auka beina hlutdeild sveitarfélaga í tekjum af greininni.

Öflugri grunnþjónustu um allt land

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi frelsi og val um búsetu. Það byggir á öflugri grunnþjónustu, öruggu og nægu rafmagni, öflugum fjarskiptum og samgöngum, skapist tækifæri fyrir dreifbýli og þéttbýli til bættra lífsgæða.

Greiðar og öruggar samgöngur er undirstaða atvinnulífs og styrkja samkeppnishæfni byggðarlaga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig sett í forgang uppbyggingu nútímalegra, greiðra og öruggra samgangna um allt land – uppbygging öflugra innviða með valkosti og fjölbreytni að leiðarljósi. Leggja verður aukna áherslu á uppbyggingu stofn- og tengivega um land allt og öfluga vetrarþjónustu. Móta verður langtímaáætlun um gerð jarðganga, styrkingu ferjuleiða og viðhalds flugvalla og uppbyggingu varaflugvalla á landsbyggðinni.

Fjarskiptainnviðir til byggðafestu

Sjálfstæðismenn telja uppbyggingu fjarskiptainnviða vera eitt mikilvægasta byggðamálið. Það er ekki bara mikilvægt hagsmunamál fyrir atvinnulífið í heild sinni heldur í raun forsenda fyrir raunverulegu valfrelsi einstaklinga um búsetu.

Ljósleiðaravæðing, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, lagði grunn að jafnari skilyrðum til búsetu og styrkti samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Uppbygging ljósleiðarakerfa á þéttbýlisstöðum er nauðsynlegt forgangsverkefni sem og frekari áætlanir um lagningu gagnasæstrengja milli Íslands og umheimsins.

Að sama skapi er raforkuöryggi mikilvægt byggðafestumál. Stjórnvöld verða að tryggja afhendingaröryggi raforku og ryðja þannig braut að grænni iðnuppbyggingu og orkuskiptum. Jöfnun dreifikostnaðar raforku hefur verið tryggð og ætti að vera varanlegt markmið.

Með ábyrgð einstaklingsins og trú á fólkið í landinu, frelsi þess og framfarahug byggjum við saman sterkari og blómlegri byggðir. Þannig verður Ísland land tækifæranna fyrir alla.

Njáll Trausti Friðbertsson er alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi við alþingiskosningarnar 25. september.