Fara í efni
Alþingiskosningar 2021

Njáll verður oddviti Sjálfstæðismanna

Njáll Trausti Friðbertsson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir.

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi sem fram fór í dag og verður því í efsta sæti á lista flokksins við alþingiskosningarnar í haust. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur á Akureyri, varð í öðru sæti og Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, varð í þriðja sæti. Njáll og Gauti sóttust báðir eftir fyrsta sætinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tvo þingmenn í kjördæminu á þessu kjörtímabili, Kristján Þór Júlíusson, sem gefur ekki kost á sér til endurkjörs, og Njál Trausta.

„Vonbrigði“

Gauti Jóhannesson hefur ekki ákveðið hvort hann þiggur þriðja sæti á listanum. „Ég get staðfest að þetta eru mér vonbrigði. Ég stefndi á oddvitasætið,“ sagði hann við Akureyri.net eftir að úrslitin voru tilkynnt. Hann sagðist myndu taka sér tíma til að hugsa málið, en bregðast við niðurstöðunni fljótlega.

„Ný ásýnd Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu“

Njáll Trausti birti eftirfarandi kveðju á Facebook

„Kæru vinir.

Ég þakka það mikla traust og stuðning sem þið hafið sýnt mér með því að kjósa mig til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi.

Á fundum og ferðum síðustu mánuði hafa störf mín og hugmyndir átt sterkan hljómgrunn í Norðausturkjördæmi.

Ég þakka meðframbjóðendum drengilega keppni sem einkum fólst í samstarfi og samstöðu. Ótal stuðningsmenn í þessu víðfeðma kjördæmi lögðu á sig mikla vinnu. Einnig vil þakka konu minni og fjölskyldu sem hefur þurft að þola fjarveru mína og ferðalög, á sama tíma og heimilinu var breytt í kaffihús og kosningamiðstöð.

Með prófkjöri höfum við stillt upp lista ólíkra einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn til samstarfs úr öllu kjördæminu. Niðurstaðan er ný ásýnd Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Ungt og kröftugt fólk er komið í framvarðarsveitina. Ég er stoltur að tilheyra þeim góða hóp.

Kæru vinir! Einungis eru 17 vikur til alþingiskosninga. Þessi öflugi hópur og sterkt umboð úr prófkjöri er upptaktur farsællar kosningabaráttu sem verður snörp og einkum upp úr miðju sumri.

Við finnum sterkan meðbyr með Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu. Hann nýtist okkur best í samstöðu.

Sjálfstæðisstefnan er gott veganesti í kosningabaráttu. Almenningur veit að trúin á einstaklinginn og athafnafrelsi er besta viðspyrnan. Í henni býr trú á tækifærin og bjartsýni til endureisnar, uppbyggingar og verðmætasköpunar.“

„Stórsigur fyrir mig“

„Þetta er stórsigur fyrir mig,“ sagði Berglind Ósk Guðmundsdóttir við Akureyri.net. Hún stefndi á 2. sæti og náði því. „Þetta er virkilega ánægjulegt og ég er mjög þakklát fyrir allan þann stuðning sem ég hef fundið í kjördæminu. Mér hefur tekist að kynna fyrir mig fyrir fólkinu en stefni að því að kynna mig enn betur og kynnast fleirum,“ sagði Berglind. Hún er varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. „Þá var raðað á lista svo þetta er í fyrsta skipti sem tek þátt í svona risastóru verkefni við að kynna mig og stend alveg á eigin fótum í því. Niðurstaðan er mjög ánægjuleg þess vegna,“ sagði Berglind.

Tölur hafa verið birtar um fimm efstu sætin.

1. Njáll Trausti Friðbertsson - 816 atkvæði í 1. sæti.

2. Berglind Ósk Guðmundsdóttir - 708 atkvæði í 1. til 2. sæti.

3. Gauti Jóhannesson - 780 atkvæði í 1. til 3. sæti.

4. Berglind Harpa Svavarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður byggðaráðs Múlaþings - 919 atkvæði í 1. til 4. sæti.

5. Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð - 854 atkvæði í 1. til 5. sæti.

Alls tóku 1.570 þátt í prófkjörinu, þar af voru 1.499 atkvæði gild.

  • Myndin: Gauti Jóhannesson kýs á Djúpavogi í dag. Hann varð undir í baráttunni um oddvitasætið.